Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2023.

Störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Áform hæstv. innviðaráðherra og borgarstjórans í Reykjavík, um að byggja nýtt hverfi í Skerjafirði til að þrengja að Reykjavíkurflugvelli og ýta honum á endanum í burtu úr Vatnsmýrinni, hafa sætt talsverðri gagnrýni og ekki að ástæðulausu. En nú hefur gagnrýnendum þessa verkefnis bæst óvæntur liðsauki, eins og hæstv. forseti veit væntanlega. Hæstv. umhverfisráðherra hefur gagnrýnt þessi áform nokkuð harkalega og tekið undir með íbúasamtökum í Skerjafirði, Prýðisfélaginu Skildi, sem berst gegn því að þarna verði grænt svæði fjarlægt. Hefur hæstv. ráðherra sagt að tilefni sé til að stöðva þessi áform.

Nú höfum við auðvitað heyrt hæstv. ráðherra og hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans halda einu og öðru fram án þess að þeir hafi fylgt því eftir. En í þessu tilviki verðum við að vona að hæstv. umhverfisráðherra sé alvara með yfirlýsingum sínum gagnvart íbúasamtökunum og almennt — þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis — með það að hann muni skerast í leikinn. Þrátt fyrir að málið sé komið til borgarinnar, eftir að innviðaráðuneytið féllst á áformin af óskiljanlegum ástæðum, þá muni hæstv. umhverfisráðherra skerast í leikinn.

Ég hvet hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans, einkum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, til að fylgja þessu eftir, ræða við sína ráðherra, hvort sem það er hæstv. innviðaráðherra eða umhverfisráðherra, og tryggja að ekkert verði af þessum áformum um (Forseti hringir.) að þrengja enn að flugvellinum og fækka enn grænum svæðum á höfuðborgarsvæðinu.