Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2023.

Störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Að undanförnu hefur Samfylkingin og raunar allir stjórnarandstöðuflokkarnir gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir andvara- og aðgerðaleysi andspænis gríðarlegum vanda í efnahagsmálum sem bitnar illa á mjög einstökum hópum. Við höfum kallað eftir viðbrögðum ríkisstjórnar en þegar spurt er út í mögulegar aðgerðir í óundirbúnum fyrirspurnum hafa oddvitar ríkisstjórnarinnar sagt fátt annað en að þylja upp aðgerðir síðustu sex ára sem þau telja sér á annað borð til tekna, jafnvel þó að það sé augljóst að sumar af þessum aðgerðum séu ekki til þess fallnar að bregðast við aðstæðum nú. Því brá nú nýrra við í umræðu um efnahagsmál í gær þegar hæstv. innviðaráðherra sakaði þingheim um að dvelja í fortíðinni. Hann sagði m.a., með leyfi forseta:

„Þegar maður hefur hlustað hér á forsvarsmenn nokkurra stjórnarandstöðuflokka þá verður að viðurkennast að maður fyllist ákveðnu svartnætti. Hér er búið að mála mjög dökka mynd af stöðunni á Íslandi.“

Og svo bætti hann við seinna í ræðunni: „Við eigum í raun og veru að hætta að horfa í baksýnisspegilinn …“

Frú forseti. Þetta er einmitt vandamálið með sjálfan hæstv. ráðherra. Það er nefnilega plagsiður ráðherra ríkisstjórnarflokkanna að vera ævinlega í sagnfræði í óundirbúnum fyrirspurnum þegar spurt er um áform, þó að það sé allt í lagi svo sem að halda hlutunum í samhengi. Ég tek undir með þeim sem segja að við þurfum að horfa fram á við en það er fyrst og fremst ríkisstjórnin sem þarf að axla ábyrgð og bregðast við með miklu kröftugri hætti og aðgerðum heldur en hún hefur gripið til hingað til og við í Samfylkingunni munum að sjálfsögðu styðja góð verk hennar.