Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2023.

fordæming ólöglegs brottnáms úkraínskra barna.

1122. mál
[16:19]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Bjarni Jónsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd utanríkismálanefndar fyrir tillögu til þingsályktunar um að fordæma ólöglegt brottnám úkraínskra barna. Ályktunargrein tillögunnar hljóðar svo:

„Alþingi fordæmir harðlega ólöglegt og kerfisbundið brottnám úkraínskra barna á hernumdum svæðum rússneska hersins í Úkraínu og flutning þeirra, jafnt innan þeirra svæða og til Rússlands og Belarúss. Það er eindregin afstaða Alþingis að rússnesk stjórnvöld skuli þegar í stað láta af brottnámi barna sem brýtur í bága við alþjóðleg mannúðarlög og telst stríðsglæpur, eins og nýlega hefur verið áréttað í yfirlýsingu leiðtogafundar Evrópuráðsins í Reykjavík. Jafnframt beri með öllum tiltækum ráðum að tryggja að þeim börnum sem flutt hafa verið til Rússlands eða Belarúss, eða innan hernuminna svæða í Úkraínu, verði tafarlaust komið til foreldra sinna eða annarra forráðamanna undir eftirliti alþjóðasamfélagsins og að rússnesk stjórnvöld og aðrir gerendur verði dregin til ábyrgðar.“

Tillaga þessi er lögð fram í kjölfar funda utanríkismálanefndar með úkraínskum þingmönnum, annars vegar með Olenu Kondratiuk, varaforseta úkraínska þingsins, og Mariiu Ionovu á Alþingi 12. maí og hins vegar með Mariiu Mezentsevu og Yevheniiu Kravchuk, sem sitja fyrir hönd Úkraínu á Evrópuráðsþinginu, á Alþingi 16. maí. Tillagan svarar ákalli Úkraínumanna um að bregðast sérstaklega við ólöglegu og kerfisbundnu brottnámi rússneska hersins og aðila á hans vegum á úkraínskum börnum. Talið er að þúsundir barna hafi verið numdar á brott og fluttar innan hernámssvæðis rússneska hersins í austanverðri Úkraínu og til Belarúss og Rússlands þar sem hluti þeirra hefur verið nauðungarættleiddur til rússneskra fjölskyldna. Markmiðið virðist vera að slíta börnin frá tungumáli sínu og menningu og rjúfa þar með tengsl þeirra við úkraínskt þjóðerni.

Alþjóðasamfélagið og stofnanir þess hafa fordæmt brottnám á úkraínskum börnum harðlega á liðnum mánuðum. Þannig hafa Sameinuðu þjóðirnar, Evrópuráðið, Evrópuþingið og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu fordæmt framferði rússneska hersins. Skemmst er að minnast fordæmalausrar handtökuskipunar dómara Alþjóðlega sakamáladómstólsins frá 17. mars sl. á hendur Vladímír Pútín, forseta Rússlands, og Mariu Alekseyevnu Lvovu-Belovu, umboðsmanni barna í Rússlandi, fyrir stríðsglæpi vegna brottnáms úkraínskra barna.

Fyrir liggur ítarleg skýrsla og ályktun Evrópuráðsþingsins nr. 2495 frá 27. apríl sl., um brottnám og nauðungarflutninga úkraínskra barna og annarra óbreyttra borgara til Rússlands eða til hernuminna svæða innan Úkraínu. Í ályktun Evrópuráðsþingsins kemur m.a. fram að vegna stríðsaðstæðna sé erfitt að meta umfang brottnáms úkraínskra borgara, þar á meðal barna, en allt bendi til þess að um mörg þúsund tilvik sé að ræða. Samkvæmt upplýsingum frá úkraínskum stjórnvöldum höfðu þau skráð 19.384 tilvik brottnuminna barna um miðjan apríl sl. Þá kemur fram að markmið brottnámsins virðist vera að afmá Úkraínu og úkraínska sjálfsmynd og menningu með því að útsetja börn fyrir rússneskri tungu, menningu, áróðri, söguskoðun og bæla jafnframt úkraínska tungu og menningarvitund. Evrópuráðsþingið undirstrikar að flutningur barna með valdi frá einum hópi til annars í þeim tilgangi að útrýma með öllu eða að hluta þjóð, þjóðernishópi, kynstofni eða trúflokki sem slíkum teljist hópmorð samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð frá 1948.

Þá skal nefnd yfirlýsing leiðtogafundar Evrópuráðsins í Reykjavík 16.–17. maí sl. um stöðu barna í Úkraínu. Í yfirlýsingunni er lýst þungum áhyggjum af fregnum af drápum, misþyrmingum og kynferðislegri misnotkun barna og ólöglegum flutningi þeirra af hálfu rússneska hersins innan hernuminna svæða í Úkraínu, og til Rússlands og Belarúss. Hvatt er til margvíslegra aðgerða til að tryggja réttindi og vernd úkraínskra barna og til þess að þeir sem brotið hafi gegn þeim verði dregnir til ábyrgðar.

Virðulegi forseti. Ísland hefur frá upphafi fordæmt tilefnislausa og ólöglega innrás Rússlands í Úkraínu og lýst yfir eindregnum stuðningi við úkraínsku þjóðina og þarlend stjórnvöld. Ísland tekur fullan þátt í alþjóðlegum þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi, styður við mannúðaraðgerðir Sameinuðu þjóðanna og annarra stofnana og tekur á móti fólki á flótta frá Úkraínu. Þá hefur Ísland haft milligöngu um loftflutninga ýmiss konar búnaðar í tengslum við varnir Úkraínu, lagt fram fjármuni í sjóði sem nýttir hafa verið til margháttaðs stuðnings við Úkraínu og fleira mætti telja.

Frá því að ólögleg innrás Rússlands í Úkraínu hófst hefur hún verið harðlega fordæmd hér á Alþingi. Í því sambandi skal vísað í yfirlýsingu forsætisráðherra og fulltrúa allra þingflokka á innrásardaginn 24. febrúar 2022, yfirlýsingu forseta Alþingis og forsætisráðherra þegar Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði alþingismenn og íslensku þjóðina 6. maí 2022, og yfirlýsingu forsætisráðherra og fulltrúa allra þingflokka 23. febrúar 2023 í tilefni þess að ár var liðið frá upphafi árásarstríðsins. Auk þess skal nefnd ályktun Alþingis frá 23. mars sl. þar sem Alþingi lýsti því yfir að hungursneyðin í Úkraínu, Holodomor, sem stóð yfir frá 1932 til 1933, hafi verið hópmorð. Þó sú ályktun fjalli um atburði sem áttu sér stað fyrir tæpum 90 árum síðan þá kallast hún á við samtímann. Loks ber að nefna ákvörðun Alþingis frá því fyrr í dag um festa kaup á færanlegu neyðarsjúkrahúsi til notkunar fyrir særða hermenn og færa úkraínsku þjóðinni.

Virðulegi forseti, Með samþykkt þessarar tillögu utanríkismálanefndar myndu þingmenn bregðast við ákalli Úkraínu um að Alþingi fordæmi ólöglegt og kerfisbundið brottnám úkraínskra barna og ítreka þannig enn og aftur samstöðu sína og stuðning við úkraínsku þjóðina á þessum erfiðu tímum.