153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

Skaðaminnkun.

[14:45]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þróunin í notkun vímuefna veldur óneitanlega miklum óhug. Vímuefni hafa aldrei verið jafn aðgengileg með tilkomu ýmissa netsvæða þar sem salar ganga nafnlausir og órekjanlegir. Sala á grófari og hættulegri efnum fer vaxandi og nú heyrum við af dauðsföllum sem rekja má til blandaðra efna, t.d. blandaðra með lífshættulegum ópíóíðum eins og fentanýl. Þessi sorglega þróun hefur verið mikil áskorun í öðrum ríkjum og það er sorglegt að slíkt eigi sér stað hér á landi. Umræðan um þennan málaflokk hefur þroskast með meiri skilningi, þekkingu og minni róttækni á báða bóga. Við erum öll sammála um að efla skaðaminnkandi úrræði til að grípa og aðstoða þá sem eru langt komnir í neyslu. Rannsóknir sýna að skipulögð úrræði á borð við neyslurými hafa gefið góða raun hvað varðar að minnka skaða af notkuninni. Við höfum stigið stór skref í skaðaminnkandi úrræðum en það er þó langt í land og við verðum öll að róa í takt í þessum efnum. Stefnan er ávallt sú að styðja við fólk til að losna úr heljargreipum fíknarinnar. Kjarni skaðaminnkunar er að bjóða þeim úrræði sem lágmarka skaðann og áhættuna. Það þarf líka að grípa fólk sem hefur orðið fyrir áfalli með sterkum stoðum í geðheilbrigðiskerfinu því algengt er að neytendur eigi sér djúpa áfallasögu sem ekki hefur verið unnið úr. Það er einnig mikilvægt að við höldum áfram að efla fræðslu og forvarnir allra, sérstaklega barna og ungmenna, og koma í veg fyrir að börn þrói með sér áhættuhegðun og þar liggur rauði þráðurinn. Börn verða fullorðin og við eigum að koma í veg fyrir að líf þeirra þróist út í neyslu fíkniefna. Þar þurfum við að standa vörð um innleiðingu og framfylgd laga um farsæld í þágu barna og sálræna aðstoð samhliða skaðaminnkandi úrræðum og koma í veg fyrir fordóma í garð fíkniefnaneytenda því það eiga sér allir sögu sem við vitum ekkert um.