153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

Skaðaminnkun.

[14:50]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir að hefja þessa þörfu umræðu, umræðu um málaflokk sem ég þekki einmitt vel. Undanfarin ár hefur orðið mikilvæg viðhorfsbreyting í málaflokknum; áherslan hefur orðið á að við tökumst á við vandann eins og hann er, nefnilega heilbrigðisvandi. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur verið ötull talsmaður þessa og tekið fjölmörg jákvæð skref þegar kemur að skaðaminnkandi úrræðum. Skrefin eru þó mun stærri og fleiri og það þarf að ganga hraðar, jafnvel hlaupa. Fólk, ungt fólk með lífshættulegan fíknisjúkdóm kemur ítrekað að lokuðum dyrum í heilbrigðiskerfinu. Það er í æpandi mótsögn við þá viðhorfsbreytingu sem hefur orðið.

En aðeins um ofuráherslu málshefjanda á afnám refsinga fyrir svokallaða neysluskammta. Um það vil ég segja enn og aftur að þarna þykir mér bæði byrjað á vitlausum enda auk þess sem horft er fram hjá mikilvægum staðreyndum. Málshefjandi veit að fólki er refsað fyrir vörslu svokallaðra neysluskammta með sektum sem eru lægri en umferðarlagasektir og brot fyrir vörslu fíkniefna koma ekki fram á sakavottorði. Fyrirspurn mín hér á þinginu sýnir síðan að 84% þeirra sem lenda í refsivörslukerfinu fyrir vörslu neysluskammta gera það í tengslum við önnur brot, m.a. umferðarlagabrot og ofbeldisbrot. Ég hef ekki heyrt málshefjanda tala fyrir því að þau brot séu gerð refsilaus vegna neyslu vímuefna, en hún vill kannski svara því hér.

Við ræðum hér og erum öll sammála um mikilvægi þess að meðhöndla fíknisjúkdóma í heilbrigðiskerfinu og því verður að halda því til haga að heilbrigðisstarfsfólk leggur höfuðáherslu á að meðferðarúrræði séu efld og aukin og það vil ég líka gera hér í dag. Ég hvet hæstv. ráðherra enn og aftur til að efla og auka skilvirkar forvarnir, fræðslu og fjölbreytt meðferðarúrræði, til að taka fleiri og stærri skref til skaðaminnkunar til að hjálpa fólki með vímuefnavanda í heilbrigðiskerfinu.