153. löggjafarþing — 116. fundur,  5. júní 2023.

staða efnahagsmála og náttúruvernd.

[15:19]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það má lengi vænta þess að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson taki óvænta snúninga og það gerði hann hér. En svo að ég segi það skýrt þá skiptir máli að við beitum ríkisfjármálunum til að slá á þenslu. Það skiptir máli þar af leiðandi að við frestum ákveðnum framkvæmdum, sem verður frestað, en að við nýtum það svigrúm sem við höfum innan ríkisfjármálanna til að bæta hressilega í stofnframlög þannig að við séum að beina kröftum okkar að því að byggja upp íbúðarhúsnæði, því að þess er þörf. Auðvitað hangir það á því að lóðir séu til staðar til að unnt sé að byggja upp t.d. innan almenna íbúðakerfisins sem hv. þingmaður þekkir vel. Það er stóra verkefnið. Hvernig sláum við á þensluna en tökumst um leið á við framboðshlið húsnæðismarkaðarins?

Hv. þingmaður spyr hér um mína skoðun á grænum svæðum. Ég vil bara minna á það þegar rætt er um borgarskipulag að það er ekkert langt síðan, en þó nokkur ár, ríkið afhenti Keldnalandið til uppbyggingar á höfuðborgarsvæðinu. Ég bind vonir við að það verði hægt (Forseti hringir.) að fara að ráðast í þá uppbyggingu (Forseti hringir.) því það skiptir miklu máli ef við ætlum að fara að styðja við framboðshliðina, (Forseti hringir.) að það verði hægt að nýta þá fjármuni til að byggja upp.