Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 116. fundur,  5. júní 2023.

íþrótta- og æskulýðsstarf.

597. mál
[18:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og alveg ágæta ræðu í þessu mikilvæga máli. Ég veit að hv. þingmaður hefur töluvert látið sig þetta varða, m.a. í fyrri störfum sínum, og ég vil þakka honum fyrir það. Ég vil því nota tækifærið og spyrja hann aðeins nánar út í þetta mál. Eins og komið hefur fram, og kom fram í ræðu framsögumanns, er hér um að ræða nýtt embætti sem var sett á laggirnar 2019, held ég. Það skiptir verulegu máli, þegar kemur að íþrótta- og æskulýðsstarfi, að allir þeir sem taka þátt í því starfi njóti öryggis þegar kemur að einelti, ofbeldi, kynferðislegu áreiti o.s.frv. Þetta er því afar mikilvægt mál og hér er verið að fara yfir stöðuna eftir að embættið, sem er nýtt, var stofnað og færa því nauðsynlegar heimildir til að geta sinnt þessu starfi í öflun persónuupplýsinga.

En mig langaði að spyrja hv. þingmann um töluna sem kemur fram í frumvarpinu þar sem verið er að lýsa yfir reynslunni, að þörfin fyrir þetta sé mikil. Þar er talinn upp fjöldi mála árið 2020. Ef við lítum til kynferðislegrar áreitni þá er fjöldi tilkynninga átta árið 2020 en 30 ári síðar. Hér er því um gríðarlega aukningu að ræða og alls eru þetta 79 tilkynningar varðandi ofbeldi, einelti, samskiptavanda og annað slíkt á árinu 2021 en voru 24 árið 2020, þannig að hér er greinileg aukning. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að þetta sé nægilegt til að kljást við þann alvarlega vanda (Forseti hringir.) sem er því miður til staðar eða hvort hann sæi fyrir sér einhvers konar fræðslu, (Forseti hringir.) t.d. í grunnskólum og fyrir þá sem eru þjálfarar í íþróttum og annað slíkt.