Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 116. fundur,  5. júní 2023.

íþrótta- og æskulýðsstarf.

597. mál
[19:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgott andsvar. Ég tók sérstaklega eftir því að hann endaði ræðu sína á því að segja að það væri nauðsynlegt að það yrði vitundarvakning. Ég tek heils hugar undir það að eitt tilvik, þar sem um er að ræða kynbundið ofbeldi eða kynferðislega áreitni í íþróttum, er einu tilviki of mikið. Það eru dæmi þess að mjög efnilegir krakkar í íþróttum hafi orðið fyrir þess háttar ofbeldi sem hafi markað þau til lífstíðar og svipt þau vilja, hæfileika og getu til þess að ná langt í íþróttum. Þess vegna er þetta mál mjög mikilvægt og ég fagnaði því mjög á sínum tíma þegar þetta embætti var stofnað.

Ég fagna því líka að hv. þingmaður leggur áherslu á að við þurfum að fara um landið og fræða þá sem eru í íþróttastarfi, þá sem bera ábyrgð á því og ekki síst börnin og ég held að þar þurfum við að gera betur við foreldrana. Við þurfum að færa þessa fræðslu inn í grunnskólana, það er bara mín persónulega skoðun. Þetta embætti eitt og sér er afar mikilvægt en það þarf líka fræðslu til foreldra. Foreldrar gegna mikilvægu hlutverki í að upplýsa börnin um hvar mörkin liggja þegar kemur að samskiptum við þjálfara og þá sem eru eldri í íþróttum. En allt er þetta af hinu góða. Ég hef í sjálfu sér ekki beina fyrirspurn til hv. þingmanns en vil bara þakka honum fyrir og ég er (Forseti hringir.) honum algerlega sammála. Það er líka ánægjulegt að hann leggur áherslu á að við förum í þessa fræðslu. Það er eitt að setja lögin (Forseti hringir.) og hafa heimildirnar en það verður líka að vera þessi fræðsla til foreldra barna og þeirra sem stunda það að þjálfa börn í íþróttum.