Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 116. fundur,  5. júní 2023.

íþrótta- og æskulýðsstarf.

597. mál
[19:10]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu. Ég vildi bara aðeins koma inn á það sem kemur fram í frumvarpinu þar sem farið er yfir þá reynslu sem þetta ágæta embætti, samskiptaráðgjafi, hefur gefið okkur í þessum málaflokki. Þar eru taldar upp þær tilkynningar sem samskiptaráðgjafa höfðu borist frá því að embættið var stofnað 2019, og þá er það fyrir árin 2020 og 2021. Ég veit ekki til þess að við höfum áður fengið svona yfirsýn yfir þær tilkynningar sem hafa borist í íþróttastarfinu um háttsemi sem á náttúrlega ekki heima í íþróttastarfi, eins og einelti og kynferðislega áreitni, líkamlegt ofbeldi og óæskilega hegðun o.s.frv. Þetta eru allt þættir sem því miður viðgangast í íþróttum og ekki bara á Íslandi heldur um allan heim.

Í síðustu viku sat ég fund mennta- og íþróttanefndar og vísindanefndar Evrópuráðsins í London þar sem einmitt var verið að ræða þetta mál. Nefndin vinnur að skýrslu um ofbeldi og einelti og kynferðislega áreitni í íþróttum. Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa frá Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA, og Alþjóðaólympíusambandinu og fleiri gesti, þar á meðal þekkt fólk í íþróttum sem hefur því miður orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi eða einelti í íþróttum.

Frú forseti. Það var sláandi að hlusta á frásagnir þessa íþróttafólks. Þar hitti ég t.d. mjög þekktan knattspyrnumann, sem nú hefur lagt skóna á hilluna sökum aldurs, og átti fund með honum eftir fundinn. Hann hefur helgað sig þessu starfi, því að berjast gegn einelti og kynferðislegri áreitni og ofbeldi í íþróttum. Hann sagði frá því sjálfur að þegar hann var 13 ára gamall á knattspyrnuæfingum varð hann fyrir kynferðislegu ofbeldi og mun það aldrei líða honum úr minni. En hann lét ekki deigan síga og varð síðan mjög þekktur knattspyrnumaður. Það var sláandi að hlusta á þessar frásagnir og ég dáist að hugrekki þessara einstaklinga að segja frá sinni reynslu. Það kom einmitt fram í málflutningi þeirra að það er mjög erfitt fyrir einstaklinga sem hafa orðið fyrir þess háttar ofbeldi í íþróttum, og oft eru þetta ung börn og unglingar, að segja frá sinni reynslu, það sé mjög erfitt og það fylgi því ákveðin skömm. Þau hvöttu öll til þess að þau sem lenda í þessu tjái sig um það, að þau komi því á framfæri og verði hugrökk í þeim efnum. Ef þessi verknaður er ekki upplýstur þá halda gerendurnir áfram og fórnarlömbin verða fleiri, því miður.

Ég vil geta þess að unnið er að skýrslu innan Evrópuráðsins um að setja á laggirnar aðgerðaáætlun til þess að berjast gegn kynferðislegri áreitni, ofbeldi og einelti í íþróttum. Tillögur Evrópuráðsins til 46 ríkja, meðlima ráðsins, munu liggja fyrir á haustmánuðum og mun ég kynna þær hér þegar þær liggja fyrir.

En varðandi þessa töflu sem kemur fram í frumvarpinu þá sýnir hún greinilega þörfina fyrir þetta embætti og líka þörfina fyrir þá lagaheimild sem nú er verið að færa embættinu, að geta unnið úr persónuupplýsingum og miðlað þeim til réttra aðila. Það er afar mikilvægt. Að sama skapi sjáum við að tilkynningarnar eru alls 24 árið 2020 og ári síðar eru þær orðnar 79. Þetta er svo sannarlega til staðar í íþróttum á Íslandi, það er því miður þannig. En það á að hvetja okkur til þess að bregðast við og efla allt sem heitir kynningarstarf og fyrirbyggjandi starf þegar að þessu kemur og styðja vel við þetta góða embætti. Þetta er afar mikilvægt embætti og það kemur fram í umsögnum sem við fengum og hjá þeim gestum sem komu fyrir nefndina, og hefur komið fram í þessari umræðu, að málafjöldinn segir til um mikilvægi embættisins og þess góða starfs sem þar er unnið.

Það hvetur okkur til líka þess að gera þetta víðtækara og ég hef verið talsmaður þess að við leggjum áherslu á að þetta fari inn í grunnskólana og börnin verði frædd um hvar mörkin liggja í samskiptum við þá eldri og þá fullorðnu sem eru að sinna þessu starfi. Mér fannst hv. þm. Jóhann Friðrik Friðriksson orða það mjög vel áðan þegar hann sagði að það þyrfti að vera heildræn sýn á að börnum líði vel í íþróttaiðkun. Ég tek heils hugar undir það, þetta er vel orðað og þetta súmmerar nákvæmlega það sem við eigum að leggja áherslu á í þessu starfi.

Frú forseti. Ég fagna þessu frumvarpi og þessum auknu heimildum. Ég fagna því líka hversu hratt er brugðist við. Þetta er nýtt embætti og ég fagna því að svona hratt skuli brugðist við því að bæta embættið hvað þetta varðar. Við sjáum það, í þessum umsögnum sem hafa borist, að allir aðilar telja þetta mjög mikilvægt. Ef ég gríp t.d. aðeins niður í umsögn Landssambands Þroskahjálpar um íþrótta- og æskulýðsstarf þá fagna þau samtök þessu nýja embætti og starfi samskiptaráðgjafa og telja það mjög mikilvægt og tækifæri til að vernda fatlað fólk. Þau vilja sérstaklega benda á að huga þarf sérstaklega að þörfum og reynslu fatlaðra barna og þátttöku þeirra í íþróttastarfi. Þessi hópur er sérstaklega viðkvæmur þegar kemur að þessu. Rannsóknir sýna með óumdeilanlegum hætti, segir í umsögninni, að fatlað fólk er í mun meiri hættu á því að verða fyrir hvers kyns áreitni og ofbeldi og því er mjög brýnt að í meðferð slíkra mála, hjá samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, sé sérstaklega hugað að aðstæðum og þörfum og réttindum fatlaðs fólks. Ég tek heils hugar undir það. Í umsögn Ungmennafélags Íslands er einmitt talað um mikilvægi þessa embættis og að það auki öryggi iðkenda í starfi um allt land. Það er jákvætt, segja þeir hér, að sjá í frumvarpi til laga að dyr til samskiptaráðgjafa standa öllum opnar í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Þetta er mikilvægt enda ljóst af tölulegum upplýsingum um málafjölda, aukningu þeirra á þeim tveimur árum sem samskiptaráðgjafi hefur starfað, að full þörf er á starfinu. Ég held að það megi líka segja að þessi aukning í málafjölda sýni að það er meiri vakning og þeir sem því miður verða fyrir þessu hafa þá meiri kjark til til þess að segja frá. Það er afar mikilvægt og var eitt af þeim lykilatriðum sem komu fram á fundi Evrópuráðsins í London, sem ég nefndi hér áðan, þ.e. mikilvægi þess að segja frá og að sama skapi að viðbrögðin séu rétt og strax verði gripið inn í og málin tekin föstum tökum.

Að þessu sögðu, frú forseti, vil ég enn og aftur þakka fyrir þessa góðu umræðu um þetta mikilvæga mál. Ég vona að við náum að útvíkka þetta með þeim hætti að auka fræðsluna og færa hana yfir í grunnskólana. Ég held að það sé afar mikilvægt og auk þess held ég að það sé mikilvægt að foreldrum sé gert ljóst mikilvægi þess að upplýsa börnin sín um það hvar mörkin liggja í samskiptum við félagana og þá sem standa fyrir íþróttastarfinu.