Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 117. fundur,  6. júní 2023.

íþrótta- og æskulýðsstarf.

597. mál
[14:45]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við styðjum þetta mál. Ég skrifaði undir nefndarálit með fyrirvara vegna þess að það er m.a. verið að fjalla um vörn fyrir iðkendur þegar kemur að þjálfurum og þeim sem starfa á vettvangi íþrótta. Í íþróttalögum er þeim sem fara fyrir íþróttafélögunum heimilt að kalla eftir sakavottorði þeirra sem starfa með börnum og við erum að gera breytingartillögu á þeim lögum þannig að tvö ákvæði hegningarlaga, þ.e. alvarlegar líkamsárásir og manndráp, falli líka undir en í núgildandi lögum er bara fjallað um kynferðisbrot.

Ég hefði viljað að nefndin hefði tekið ákvörðun um að kalla mætti eftir erlendum sakavottorðum af því að nú vitum við að þeir sem starfa á vettvangi íþróttanna hafa oft verið búsettir erlendis líka, eru ýmist Íslendingar sem hafa verið búsettir árum og áratugum saman erlendis eða fólk af erlendum uppruna. Ég hefði talið að það væri í þágu barna að við gæfum forráðamönnum íþróttafélaga heimild til að kalla eftir slíkum vottorðum, þ.e. ekki bara sakavottorðum hér heldur líka sakavottorðum erlendis frá ef vitað er að um er að ræða einstakling sem hefur búið erlendis. Ég held að það hefði farið betur á því. Þess vegna gerði ég þetta með fyrirvara. Ég styð málið.