Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 117. fundur,  6. júní 2023.

alþjóðlegar þvingunaraðgerðir og frysting fjármuna.

974. mál
[16:48]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Teitur Björn Einarsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá hv. utanríkismálanefnd. Með frumvarpinu sem hér liggur fyrir verða lög um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og lög um frystingu fjármuna og fleira felld úr gildi og í stað þeirra sett ný heildarlög þar sem fjallað er á einum stað um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða. Auk þess er ákvæðum laganna ætlað að tryggja að staðið sé með tryggum hætti að innleiðingu alþjóðlegra skuldbindinga sem Ísland hefur gengist undir, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Herra forseti. Umfang þvingunaraðgerða sem Ísland tekur þátt í hefur stóraukist síðustu ár, ekki síst eftir ólögmæta yfirtöku Rússlands á Krímskaga árið 2014 og innrás Rússlands í Úkraínu í febrúar 2022. Með frumvarpinu eru lagaákvæði um framkvæmd eignaupptöku skýrð frekar þegar kveðið er á um slíkt í þvingunaraðgerðum. Alþjóðlegar þvingunaraðgerðir kveða í auknum mæli á um eignaupptöku en engin heimild hefur verið fyrir slíku í íslenskum lögum er varðar slíka framkvæmd.

Við meðferð utanríkismálanefndar og vinnu í þessu máli komu fyrir nefndina fulltrúar utanríkisráðuneytisins og eins bárust umsagnir frá Skattinum og Seðlabanka Íslands.

Eftir ítarlega vinnu nefndarinnar og með hliðsjón af þeim umsögnum sem bárust þá verður nefndin að leggja til að gerðar verði fjórar meginefnisbreytingar á frumvarpinu sem ég ætla að fá að rekja hér stuttlega. Í fyrsta lagi er þetta könnun á því hvort viðskiptamenn séu á lista yfir þvingunaraðgerðir skv. 13. gr. frumvarpsins, í öðru lagi er atriði sem snýr að landgöngubanni skv. 15. gr., í þriðja lagi stjórnvaldssektir er lúta að 30. gr. frumvarpsins og í fjórða lagi birting upplýsinga um mál til ógildingar á ákvörðunum um stjórnsýsluviðurlög sem fjallað er um í 36. gr. frumvarpsins. Í þremur af þessum atriðum, þ.e. könnun á hvort viðskiptamenn séu á lista yfir þvingunaraðgerðir, stjórnvaldssektum og birtingu upplýsinga um mál til ógildingar á ákvörðunum, er um að ræða athugasemdir sem bárust frá Seðlabanka Íslands og Skattinum og lúta fyrst og fremst að samræmingu milli lagaákvæða þannig að tryggt sé að skýrleiki og samhengi sé ljóst og tel ég svo sem óþarfa að gera nánari grein fyrir þessum atriðum hér en vísa til ítarlegrar umfjöllunar í nefndaráliti.

Fjórða atriðið sem ég kom inn á áðan er landgöngubann og er að finna í 15. gr. Um það er að segja að í þeirri grein kemur fram að meina beri einstaklingi landgöngu eða gegnumumferð í samræmi við reglugerðir sem settar eru á grundvelli laganna. Það leiðir af 66. gr. stjórnarskrárinnar að íslenskum ríkisborgara verður ekki meinuð landganga til Íslands og því telur nefndin rétt að breyting verði á ákvæðinu þannig að tekið sé fram að það nái til einstaklinga annarra en íslenskra ríkisborgara. Það er mikilvægt, herra forseti, að þetta sé skýrt og komi hér fram.

Aðrar breytingar eru tæknilegs eðlis og óþarfi að ræða hér efnislega. Að öllu því sem ég hef sagt hér þá er það niðurstaða nefndarinnar að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem er að finna í nefndarálitinu. Undir það rita og samþykkja ásamt mér Bjarni Jónsson, Birgir Þórarinsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Jakob Frímann Magnússon, Jóhann Friðrik Friðriksson, Logi Einarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.