Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 118. fundur,  7. júní 2023.

breyting á ýmsum lögum til samræmis við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

1156. mál
[11:52]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegi forseti. Að þurfa að ræða eigin launakjör, eins og við erum að gera hér, er í mínum huga ekki gott en ég hef samt hug á að gera það vegna þess að mér finnst sú tillaga sem ríkisstjórnin er að leggja fram sérstök í meira lagi og ekki í samræmi við það ákall sem uppi er í samfélaginu. Fyrir mig, í þeirri forréttindastöðu sem ég er, breytir það í sjálfu sér engu hvort ég fæ 20.000 meira eða minna útborgað en ég tel eðlilegt að benda á það sem mér finnst athugavert við þá tillögu sem fram er komin frá ríkisstjórninni. Ég á hins vegar ekki von á að mikil umræða verði um þetta mál hér þar sem flestum reynist erfitt að ræða launakjör sín opinberlega.

Ég man vel eftir því sem þátttakandi við gerð kjarasamninga á almennum markaði á árinu 2016, samninga sem að margra dómi þóttu bara alveg ágætir og voru m.a. undanfari þess að gerð voru lög um almennar íbúðir, þegar kjararáð úrskurðaði margfalda launahækkun til handa alþingismönnum, ráðherrum og fólki í hæstu lögum opinberra starfsmanna. Þessari hækkun var mótmælt harðlega og í kjölfarið var fyrirkomulaginu breytt og upp var tekið núgildandi fyrirkomulag, sem nú stendur til að breyta. Þetta fyrirkomulag fól í sér að þingmenn og aðrir sem undir þetta féllu ættu að hækka í launum sem næmi meðaltalshækkun launa opinberra starfsmanna frá fyrra ári. Margir samningar sem gerðir hafa verið á almennum vinnumarkaði að undanförnu fela í sér krónutöluhækkanir en mörg félög, eins og félög iðnaðarmanna og VR, töldu sig þurfa á prósentuhækkun halda og þar sem sú aðferð var viðhöfð var sett þak á hækkunina þannig að enginn færi upp fyrir þakið. Þar var samið um 6,75% hækkun með launaþaki upp á 66.000. Þegar farið er að skoða launabreytingar opinberra starfsmanna kemur í ljós að meðaltalshækkun þeirra var í kringum 6% og það er sú prósentutala sem miða á við við næstu launabreytingu sem, eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi, ætti að eiga sér stað 1. júlí. Sú prósentuhækkun gerir það hins vegar að verkum að öll þau sem þetta á við fara yfir þetta umsamda þak og myndu því laun þingmanna hækka um 85.000 kr., nái þetta fram að ganga. Formenn flokka, ráðherrar og forseti, dómarar og fleiri fengju talsvert meiri hækkun en þessar 85.000 kr.

Virðulegur forseti. Krafan úti í samfélaginu er hins vegar sú að það sé rétt og eðlilegt við þessar aðstæður að þingið og ráðherrar og aðrir virði umsamið launaþak á almennum markaði og fari ekki yfir það. Það er því í mínum huga eðlilegt að leggja til breytingar í samræmi við þetta ákall samfélagsins. Aðstæður úti í samfélaginu kalla á slíka samstöðu. Nú er hins vegar komin fram tillaga um að fara aðra leið, leið sem enginn hefur sérstaklega kallað eftir. Ríkisstjórnin er hér að leggja til 2,5% hækkun í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans, eins og sagt er. Mér segir hins vegar svo hugur að ekki sé verið að fara þessa leið til að koma öllum undir áðurnefnt launaþak heldur til þess að rugla ekki hlutföllum milli óbreyttra þingmanna og þeirra sem staðsettir eru hærra í launastiganum. Það er hins vegar búið að rugla öllum launahlutföllum á hinum almenna markaði með umsömdu launaþaki, og hvers vegna má slíkt ekki gerast hér? Þarf einhverja sérleið fyrir hæsta lag samfélagsins þegar ákallið úti í samfélaginu er allt annað? Óbreyttur þingmaður hefði, miðað við gildandi fyrirkomulag, fengið 85.000 kr. í launahækkun en fær rúmar 30.000 kr., sem er eins og allir sjá langt undir því launaþaki sem samið var um á almennum markaði.

En hvers vegna er ríkisstjórnin að velta fyrir sér verðbólgumarkmiðum Seðlabankans núna? Hún hefur ekki verið að gera það hingað til. Ekki gerði hún það þegar ákveðið var að verðtryggja krónutöluhækkanir síðustu fjárlaga og fjármálaráðherra hefur sagt að þannig verði það einnig í framhaldinu. Ríkisstjórnin er því ekki að bregðast við þessu ákalli almennings með þessari ráðagerð heldur er hún að mínu mati að hanga á því að viðhalda óbreyttum launahlutföllum meðal æðstu ráðamanna þjóðarinnar þrátt fyrir að það hafi verið talið sjálfsagt að rugla öllum hlutföllum á hinum almenna markaði.

Við erum einnig farin að sjá viðbrögð við þessum breytingum sem verið er að ræða hér. Dómarar hafa lýst yfir áhyggjum af ítrekuðum inngripum í kjör þeirra af hálfu stjórnmálafólks og telja að pólitíkin hafi engan rétt til að breyta kjörum þeirra með þessum hætti þó að Alþingi geri breytingar á eigin kjörum. Kannski er ríkisstjórnin með þessari tillögu að reyna að senda einhver skilaboð út í loftið og skapa fordæmi fyrir aðra til að fara eftir við gerð næsta kjarasamnings. Kannski telur ríkisstjórnin að með þessu geti hún fengið annað launafólk til að gera það sama og verið er að gera hér, þ.e. horfa til verðbólgumarkmiða Seðlabankans. Ég geri hins vegar ráð fyrir að launafólk muni horfa að mestu leyti til annarra þátta þegar kemur að því að ræða gerð næsta kjarasamnings, eins og verðbólgu, vaxta og verðlags, sem hefur miklu meiri áhrif á afkomu þeirra en það sem við erum að gera hér. Ég held að þessi ríkisstjórn þurfi að vanda sig þegar kemur að næstu fjárlagagerð ef hún ætlar að koma í veg fyrir að launakröfur haustsins fari úr böndunum og bjóða ekki upp á endurtekið efni aftur og aftur.

Eins og ég sagði í upphafi er ekki einfalt að taka þátt í umræðu um eigin kjör, enda sést það á mælendaskránni hér, hvað þá að eiga að ákveða hver þau eiga að vera. En eins og ég hef farið yfir í ræðu minni hér get ég ekki með nokkru móti séð að með þessari ráðagerð sé verið að mæta ákalli samfélagsins um að sitja við sama borð og þeir aðrir úti í samfélaginu sem fengu á sig launaþak í kjarasamningum á almennum markaði. Ég mun því ekki taka þátt í afgreiðslu þessa máls, virðulegi forseti.