Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 119. fundur,  7. júní 2023.

sjúkraflug.

1061. mál
[12:46]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Berglindi Ósk Guðmundsdóttur fyrir að taka upp þessa umræðu sem er gríðarlega mikilvæg og snýr að sjúkraflugi í landinu og mikilvægi Reykjavíkurflugvallar í því samhengi. Eins og kom fram í máli hv. þingmanns hér áðan voru á síðasta ári flogin 800 flug með vélum Mýflugs með 900 sjúklinga. Gæslan hefur verið með 150 flug á ári að undanförnu, svona 15% af sjúkraflugi í landinu; gríðarlega stórt og mikilvægt að þetta gangi vel fyrir sig og þá er Reykjavíkurflugvöllur gríðarlega mikilvægur.

Mig langar síðan í örstuttu máli að koma að mikilvægi þess að skoða að bæta þjónustuna á austurhluta landsins með þyrlukosti. Ég hef bent margoft á mikilvægi þess að koma slíkri þjónustu upp á Egilsstöðum eða Akureyri og mikilvægi þess vegna þess að austari hluta landsins er illa sinnt í dag með þyrlum Gæslunnar og örlítið brot þjónustað miðað við fjölda. Mikilvægið er mikið og úr þessu þurfum við að bæta með öflugum hætti.