153. löggjafarþing — 121. fundur,  8. júní 2023.

samstaða um stuðning við Úkraínu.

[12:13]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég kem hingað upp til að lýsa því yfir að ég er sammála þeim sem talað hafa á þeim nótum að það sé okkur til minnkunar ef við framlengjum ekki þetta bráðabirgðaákvæði um tollfrelsi til handa Úkraínufólki. Þetta mál hefur auðvitað verið rætt mjög víða og á mörgum stöðum. Ég sendi m.a. bréf til formanns efnahags- og viðskiptanefndar, tölvupóst, fyrir rúmri viku þar sem ég hvatti nefndina til að taka málið upp á sína arma og klára það. Það er því ekki eins og þetta hafi ekki verið rætt, að ekki hafi allir verið meðvitaðir um það og þetta hafi einhvern veginn komið aftan að fólki. Þetta er búið að liggja fyrir í talsverðan tíma og ég ítreka að það er hálfskammarlegt fyrir þingið ef við förum héðan burt án þess að framlengja þetta.