153. löggjafarþing — 121. fundur,  8. júní 2023.

samstaða um stuðning við Úkraínu.

[12:18]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég er bjartsýn að eðlisfari og ég treysti því að það sé meiri hluti hér á þingi fyrir því að við höldum áfram þessum stuðningi. Ég held að það sé ekki slík þumalskrúfa inni í stjórnarflokkunum núna að einhver einn flokkur eða hópur innan eins þingflokks geti beitt slíkri þumalskrúfu að við fellum niður þennan sjálfsagða bráðabirgðastuðning við úkraínsku þjóðina. Þannig að ég vil aftur hvetja formann efnahags- og viðskiptanefndar til að kanna hvort það sé ekki meiri hluti innan nefndarinnar til að styðja þetta mál og ég kalla líka eftir afstöðu þingmanna Vinstri grænna sem sitja hérna í salnum. Er fyrirstaða við þetta mál í ykkar röðum, að við höldum þessum stuðningi áfram? Við erum ekki að tala um að við séum að fara að flytja hérna inn lambalæri. Þetta er kjúklingur sem er verksmiðjuframleiddur á Íslandi. Ég er ekki viss um að við þurfum að hafa svona miklar áhyggjur af þessari bráðabirgðaívilnun en þetta skiptir rosalega miklu máli fyrir úkraínskt fólk og þeirra sjálfsbjargarmöguleika.