Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 121. fundur,  8. júní 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:48]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að Flokkur fólksins er með tekjur á móti. Flokkurinn ætlar að hækka skatta og auka álögur á fyrirtæki. Sú tekjuhlið er u.þ.b. 16 milljarðar, segir í nefndarálitinu, en útgjaldahækkunin er 28 milljarðar. Það vantar því þarna upp á einhverja 12 milljarða. Það væri bara fróðlegt að fá að vita hvar hv. þingmaður ætlar að finna þá peninga vegna þess að núna er afar mikilvægt að sýna aðhald og fara varlega í allar hækkanir, skattahækkanir og annað slíkt á almenning, þegar við erum öll að glíma við verðbólgu og vaxtahækkanir. Þetta er tímabundið ástand, það er tímabundið erfitt að kljást við þetta en við munum ná okkur fljótt á strik þegar við náum verðbólgunni niður. En það væri gott ef hv. þingmaður kannski svaraði því hvar hann ætlar að fá þessa 12 milljarða sem vantar upp á, eins og kemur fram í nefndaráliti hans.