Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 121. fundur,  8. júní 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:34]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég sit ásamt hv. þingmanni í fjárlaganefnd og við höfum tekið efnislega umræðu um þetta mál undanfarnar vikur. Þar hefur mér verið tíðrætt um mannfjölgun í landinu og alþjóðlega verðbólgu, hagvöxtinn og alla þessa hluti sem eru raunverulega að búa til býsna flókið mynstur varðandi verðbólgu í landinu. Alþjóðlega verðbólgan hefur komið vegna peningaprentunar úti um allan heim, magnbundin íhlutun svokölluð, í gegnum Covid, Úkraínustríðið, aðfangakeðjurnar og orkukreppu. Þetta er staðan sem hefur skapast og ég hugsa að við þurfum að fara aftur til áttunda áratug síðustu aldar til að finna einhvern samjöfnuð í orkukreppunum sem voru þá. Það tók langan tíma að vinna það niður í alþjóðlegu hagkerfi.

Eins og ég skil efnahagsmálin þá er það bara gríðarlegur þrýstingur á íslenskt samfélag að hér hafi fjölgað um 39% frá aldamótum í landinu, eins og mér skilst að tölurnar séu núna, yfir 3% á síðasta ári, sem er ótrúleg tala á einu ári, 3,1%, og fyrstu þrír mánuðir þessa árs, fyrsti ársfjórðungur fer enn hraðar af stað í hlutföllunum. Þá erum við með mjög flókna hluti sem við erum að fást við og við erum að reyna að ná einhverju jafnvægi, stilla kerfið af á nýjan leik. Það er stóra myndin sem við erum að fást við.

Hvað eigum við að gera með ferðaþjónustuna, hv. þingmaður? Þú komst svolítið neikvætt inn á hana. Það er rétt að þetta er eitt það stærsta eða öflugasta varðandi byggðastefnu í landinu sem hefur sést áratugum saman. Eitthvað þarf að gera, eins og hv. þingmaður kemur inn á, það er bara hvað það er, hvernig hann sér það fyrir sér.

Svo langar mig að spyrja líka um frumjöfnuð sem er oft notaður í efnahagsmálum þegar við erum að ræða ríkisfjármálin. Hvað annað betra sér hv. þingmaður til að gera þetta? Þetta er til að bera saman á milli ára og þá er þetta eiginlega eina leiðin til að bera saman þannig að þú takir vaxtagjöld og tekjur út fyrir. (Forseti hringir.) Hvernig sérð þú þetta fyrir þér, hv. þingmaður?