Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 122. fundur,  9. júní 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[13:24]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Annar minni hluti, sem sagt Flokkur fólksins, getur engan veginn stutt þessa fjármálaáætlun að óbreyttu. Þörf er á frekari aðgerðum til að stemma stigu við vaxandi verðbólgu. Því eru lagðar til nokkrar breytingar á tekju- og gjaldahlið með það að markmiði að sporna gegn verðbólgu og vernda viðkvæma þjóðfélagshópa. Á tekjuhliðinni er lagt til að bankaskattur verði hækkaður í fyrra horf, sem sagt í 0,376%, það sem hann var áður, við viljum hækka um 0,231%, sem gefur hvorki meira né minna en 9 milljarða kr. í ríkissjóð. Við viljum ná í frekari fjármuni af sjávarauðlindinni og allar okkar tillögur miða að því að bæta afkomu og stöðu samfélagsins.

Á tímabili fjármálaáætlunar eru útgjöldin sem við erum að boða um 62,6 milljarðar kr. á fimm árum en við erum að skila til baka 80 milljörðum kr. á gjaldahliðinni. Þannig að það eru 17,4 milljarðar í plús fyrir ríkissjóð. Það ættu allir að gleðjast yfir því, ekki satt? (Forseti hringir.) Okkur vantar alltaf krónur í kassann. (Forseti hringir.) Ég mæli með því að hv. þingmenn, sem sumir hverjir hafa komið hér inn og ætlað að tala um það að Flokkur fólksins sé einhver skattahækkunarflokkur — það er mesti misskilningur. Við gerum ekki annað en búa til peninga fyrir ykkur.