Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 122. fundur,  9. júní 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[13:42]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Flokkur fólksins hefur kallað eftir því alllengi að bankarnir verði látnir taka þátt í samfélagslegri baráttu okkar gegn verðbólgu og okurvöxtunum sem þeir eru nú að taka til sín frá heimilunum í landinu. Bankaskatturinn var lækkaður úr 0,376% í 0,145%, hann var sem sagt lækkaður um 0,231%. Ef við setjum skattinn í það sem hann var, hann er byggður á heildarskuldbindingum bankanna, þá fáum við í ríkissjóð hvorki meira né minna en 9 milljarða kr. Ég verð að segja það, virðulegi forseti og hv. þingmenn og bara æðstu frábærustu ráðherrar, að ég get engan veginn skilið hvers vegna í ósköpunum við sækjum ekki fé þangað sem það er fyrir til þess að bera út í veikar stoðir á margan hátt, eins og 2. minni hluti kemur hér með tillögur um, fjármagnaðar að fullu eins og ég sagði áðan. Við erum frábær í Flokki fólksins. Við erum ekki að spreða peningum þeirra sem eiga þá ekki til (Forseti hringir.) og leggja aukagjöld og álögur á fátækt fólk, bara alls ekki. (Forseti hringir.) Ég hvet ykkur til að styðja þetta.