Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 122. fundur,  9. júní 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[13:52]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Þau undur og stórmerki áttu sér stað í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar að eitt af þeim góðu verkum sem þau ætla að vinna einn, tveir og þrír er að bæta við 250 íbúðum. Því hefur reyndar aldrei verið svarað hvernig þau ætla að hrista 250 íbúðir fram úr erminni þegar það eru engar lóðir og ekki neitt, en það er nú algjört aukaatriði. Það hlýtur bara að vera einhver töfrasproti sem þeytir þeim af stað. En Flokkur fólksins er að óska eftir því að tvöfalda framlög til uppbyggingar og sérstaklega inn í félagslega kerfið og annað slíkt og hækka þessi framlög úr 3,7 milljörðum, sem ríkisstjórnin hefur hugsað sér að leggja í málaflokkinn, í 7,4 milljarða kr., sem sagt tvöfalda þessa upphæð á meðan við erum að reyna að koma böndum á það ófremdarástand sem nú ríkir á húsnæðismarkaði. Og aftur: Vitið þið bara hvað, ef þið farið eftir því sem ég er búin að vera að boða hér fyrir hönd Flokks fólksins þá eigum við 17,4 milljarða kr. í afgang eftir lífdaga þessarar fjármálaáætlunar, hvorki meira né minna.