Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 122. fundur,  9. júní 2023.

Land og skógur.

858. mál
[13:59]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Oft hefur komið til tals að rétt væri að sameina þær tvær stofnanir sem hér eru ræddar, þ.e. Landgræðsluna og Skógræktina, og nú er komið að því. Við erum hér að stíga það mikilvæga skref að móta og leggja grunn að öflugri stofnun sem hefur skýrt hlutverk í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda um land og líf og alþjóðlegar skuldbindingar. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka nefndinni fyrir algerlega frábært starf. Þarna höfum við tækifæri til þess að efla landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis og ekki síður að vinna með markvissari hætti en nokkru sinni fyrr í þágu þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta er mjög mikilvægt skref. Starfsstöðvarnar geta verið sem víðast, aðalstarfsstöðin hvar sem er. Landshlutabundin verkefni verða alltaf nálægt verkefnunum sjálfum. Þetta getur líka orðið grunnur að öflugri og sterkri stjórnsýslustofnun í landbúnaði og þannig getur hún víkkað starfssvið sitt. (Forseti hringir.) Breiður stuðningur í þinginu og góðar óskir fylgja nýrri öflugri stofnun.