Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 122. fundur,  9. júní 2023.

almannatryggingar og húsnæðisbætur.

1155. mál
[14:50]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við styðjum þessa hækkun en hefðum viljað sjá hana meiri. Það er ekki sama fyrir hvaða hóp er verið að leggja til 2,5% hækkun á útborgun. Það fer svolítið eftir því hversu há útborgunin er. Ef við berum saman það sem öryrkjar munu fá út úr þessari u.þ.b. 7.000–10.000 kr. hækkun á mánuði þá erum við að tala um að með sinni 2,5% hækkun munu þingmenn fá um 34.000 kr., ráðherrar um 55.000 kr. og forsætisráðherra um 61.000 kr. Við leggjum til í þingflokki Pírata að bregðast við ákalli Öryrkjabandalagsins og hækka þetta um 6%. Það rétt dugir upp í þær miklu verðlagsbreytingar sem orðið hafa. Sem hliðarverkun af því leggjum við líka til að frítekjumarkið sé hækkað til að þetta valdi ekki skerðingum. Að því sögðu, og eins og venjulega þá geri ég ráð fyrir því, því miður, að okkar tillögur verði felldar, þá styðjum við nú samt eftir sem áður þetta mál.