Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 122. fundur,  9. júní 2023.

almenn hegningarlög.

45. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli með ákveðnu stolti yfir störfum Alþingis fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar í máli um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, með síðari breytingum, en um er að ræða bann við bælingarmeðferðum. Undir nefndarálitið rita, auk þeirrar sem hér mælir fyrir álitinu, formaður nefndarinnar, hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, og hv. þingmenn Jódís Skúladóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Tómas A. Tómasson, og loks styður hv. þm. Sigmar Guðmundsson einnig álitið.

Frumvarpið felur í sér að nýrri grein verði bætt við 24. kafla almennra hegningarlaga með síðari breytingum sem snýr að brotum gegn frjálsræði manna. Í ákvæðinu er gert refsivert að láta einstakling undirgangast svokallaða bælingarmeðferð með nauðung, blekkingum eða hótunum eða að láta barn undirgangast slíka meðferð hér á landi eða erlendis sem og að framkvæma bælingarmeðferðir, hvetja til eða þiggja fé vegna þeirra. Því til viðbótar er lagt til að brot gegn 2. mgr. ákvæðisins verði færð undir 3. mgr. 5. gr. laganna sem snýr að refsingum eftir íslenskum lögum fyrir brot sem framin eru erlendis. Lagatæknilegt vissulega, en það er nauðsynlegt þegar um er að ræða almenn hegningarlög að fara djúpt ofan í þetta. Það er líka mælt fyrir um 1. mgr. 82. gr. sem kveður á um að fyrningarfrestur brota gegn börnum teljist ekki fyrr en brotaþoli nær 18 ára aldri.

Frú forseti. Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund fjölda gesta sem og fjölda umsagna en ekki er ætlunin að telja það allt upp hér. Lesa má um þetta í nefndaráliti sem liggur frammi. Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar árétta sérstaklega að í umsögnum þeirra sem lýstu yfir stuðningi við frumvarpið kom m.a. fram að bælingarmeðferðir feli í sér gróft ofbeldi sem eigi ekki að líðast og að samþykkt frumvarpsins sé mikilvægt til að hinsegin fólk fái að lifa sem það sjálft án ótta við að verða fyrir einmitt slíku ofbeldi.

Nefndinni bárust einnig neikvæðar umsagnir um frumvarpið og í þeim umsögnum var m.a. lýst yfir áhyggjum yfir því að hugtakið „bælingarmeðferð“ væri skilgreint með of víðtækum hætti og að ekki væri tilefni til að banna meðferðir til að bæla eða breyta kynvitund og kyntjáningu heldur eingöngu kynhneigð. Í umsögn Genid Norge segir t.d. að með frumvarpinu sé opnað fyrir túlkanir sem muni leiða til þess að læknisfræðilega viðurkennd samtalsmeðferð fyrir börn og unglinga með kynama myndi flokkast sem bælingarmeðferð. Meiri hlutinn tekur ekki undir þessar áhyggjur og áréttar það sem fram kemur í greinargerð frumvarpsins, að bælingarmeðferðir eru einmitt ekki byggðar á læknavísindum heldur taka til meðferða sem byggja á öðrum grunni en vísindalegum. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga við meðferð þessa máls: Bælingarmeðferðir eru ekki byggðar á læknavísindum. Þær taka til meðferðar sem byggir á öðrum grunni en vísindalegum.

Umboðsmaður barna hvatti til samþykktar frumvarpsins en benti þó á að til þess að markmið þess nái fram að ganga og með hliðsjón af meginreglu refsiréttar um skýrleika refsiheimilda gæti verið tilefni til að endurskoða að einhverju leyti hugtakanotkun frumvarpsins til að afmarka og skilgreina betur þá háttsemi sem frumvarpinu sé ætlað að leggja bann við.

Nefndin óskaði einnig umsagnar refsiréttarnefndar. Nefndin tekur undir mikilvægi þess að veita fólki, og sérstaklega börnum, viðeigandi vernd gegn þeim skaða sem bælingarmeðferðir kunna að valda. Refsiréttarnefnd gerði þó athugasemdir við þrjú atriði í frumvarpinu. Í fyrsta lagi taldi hún æskilegt að hugtakið „meðferð“ yrði skilgreint og að fjallað yrði um hvaða háttsemi falli þar ekki undir. Í öðru lagi taldi hún að frumvarpið ætti að vera skýrara varðandi mögulega refsiábyrgð ýmissa fagstétta og jafnframt foreldra og forsjáraðila. Í þriðja lagi taldi refsiréttarnefnd að taka þyrfti afstöðu til þess að hvaða marki sú háttsemi sem lýst er í frumvarpinu sé þegar refsiverð að íslenskum lögum og að ákvarða þurfi hvaða lagaákvæðum skuli beita í framkvæmd þegar háttsemi sem lýst hefur verið sem refsiverðri fellur undir efnislýsingu fleiri en eins ákvæðis.

Meiri hlutinn bregst við athugasemdum refsiréttarnefndar og umboðsmanns barna með umfjöllun og með breytingartillögu. Í 3. gr. frumvarpsins segir:

„… að viðurlög taki til hvers sem með nauðung, blekkingum eða hótunum fái einstakling til að undirgangast meðferð í þeim tilgangi að bæla eða breyta kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu, hvers sem láti barn yngra en 18 ára undirgangast slíka meðferð og hvers sem framkvæmi, hvetji með beinum eða óbeinum hætti til eða hafi þegið fé vegna slíkrar meðferðar.“

Í umsögn refsiréttarnefndar kemur fram að orðalagið „hver sem“ feli í sér víðtæka refsiábyrgð og telur refsiréttarnefnd að þar undir geti fallið ýmsar fagstéttir. Telur hún æskilegt að frumvarpið sé skýrara um ábyrgð foreldra eða forsjáraðila í þessu sambandi og undir hvaða kringumstæðum geti stofnast til refsiábyrgðar þessara aðila.

Að mati meiri hlutans er varhugavert að afmarka gildissvið ákvæðisins við tiltekna hópa enda myndi með því skapast hætta á að aðilar sem ekki væru tilgreindir sérstaklega yrðu undanþegnir ákvæðinu og þar af leiðandi hægt að nýta þá einstaklinga, þá hópa sem milliliði við framkvæmd bælingarmeðferða með lögmætum hætti.

Láti þeir barn undirgangast skipulagðar meðferðir í þeim tilgangi að bæla eða breyta kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu þess á það að falla undir gildissvið laganna. Ef aðrir en foreldrar eða forsjáraðilar væru undanþegnir viðurlögum myndi það opna löglegar leiðir fram hjá þessu ákvæði. Þá ættu foreldrar eða forsjáraðilar ekki að bera ábyrgð samkvæmt greininni ef barn þeirra er látið undirgangast bælingarmeðferð gegn vitund þeirra og vilja.

Meiri hlutinn áréttar að ákvæðið leggur ekki viðurlög við aðgerðum eða aðgerðaleysi sem miða að því að virða ekki ósk fullorðins einstaklings eða barns um breytingar á kynvitund eða kyntjáningu sinni. Í ákvæðinu eru aðeins viðurlög við meðferðum sem miða að því að bæla eða breyta kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu með nauðung, blekkingum eða hótunum. Þetta verður að vera alveg skýrt og þannig er það.

Meiri hlutinn telur að túlka beri þessi hugtök, nauðung, blekking og hótun, í samræmi við önnur ákvæði umræddra laga, önnur ákvæði hegningarlaganna. Við erum með þetta víða í lögunum, sbr. t.d. 218. gr. b og 225. gr. laganna varðandi nauðung og hótanir og 2. mgr. 194. gr. og 3. mgr. 202. gr. varðandi blekkingar. Í því samhengi er einnig rétt að líta til nánari útlistunar sem finna má í 1. tölulið 1. mgr. 227. gr. a, en þar segir, með leyfi forseta:

„… með því að vekja, styrkja eða hagnýta sér villu viðkomandi um aðstæður, eða með því að notfæra sér bága stöðu, fákunnáttu eða varnarleysi viðkomandi eða með því að hagnýta sér yfirburðastöðu sína.“

Með öðrum orðum, frú forseti, þá er um að ræða nauðung, blekkingu eða hótun víða í almennum hegningarlögum þannig að það þarf ekki að hafa áhyggjur af því að það sé á einhvern hátt óskýrt.

Meiri hlutinn beinir því til dómsmálaráðuneytis að láta framkvæma úttekt á umfangi bælingarmeðferða hér á landi og í nágrannalöndum okkar. Þannig mætti vinna að frekari umbótum til að styðja við þolendur slíkra meðferða í samráði við heilbrigðis-, barnaverndar- og félagsmálayfirvöld sem og þær fagstéttir allar og hagsmunasamtök sem starfa í þágu hinsegin fólks og hinsegin barna.

Nefndin fjallaði að auki um samspil frumvarpsins við önnur ákvæði laga en sú háttsemi sem lagt er til að verði refsiverð í frumvarpinu kann að einhverju leyti að heyra nú þegar undir önnur lög, svo sem barnaverndarlög sem og önnur ákvæði almennra hegningarlaga eins og áður hefur komið fram. Meiri hlutinn telur að við túlkun skuli ákvæði frumvarpsins ganga framar almennari ákvæðum og gagnvart lagaákvæðum sem kveða á um vægari refsingu fyrir háttsemi sem réttilega má heimfæra undir bæði ákvæði.

Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu, sem einmitt eru gerðar til að skýra betur ýmsar skilgreiningar, eins og áður hefur verið farið yfir, ábendingar refsiréttarnefndar:

Í fyrsta lagi er lögð til breyting er varðar 3. gr. frumvarpsins og hugtakið „meðferð“ til að koma til móts við ábendingar refsiréttarnefndar. Meðferðir þær sem falla undir gildissvið ákvæðisins, svonefndar bælingarmeðferðir, sem á ensku kallast „conversion therapies“, fela í sér óvísindalegar aðferðir sem ætlað er að bæla eða breyta kynhneigð einstaklings, kynvitund eða kyntjáningu með það að markmiði að gera viðkomandi gagnkynhneigðan eða sískynja.

Í nefndarálitinu er því lýst hvernig bælingarmeðferðir hafa tekið á sig ýmsar myndir, þar með talið samtal þar sem reynt er að tengja upplifun þolandans á eigin kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu við einhvern tilfinningalegan sársauka eða skömm. Trúarlegri íhlutun, bænum og dáleiðslu hefur einnig verið beitt til að ná sama markmiði. Þá hefur líkamlegri íhlutun verði beitt í bælingarmeðferðum, t.d. með uppskurði á heila, vönun með skurðaðgerð eða lyfjum, raflosti, lyfjum sem valda ógleði og með endurskilyrðingu við sjálfsfróun. Innan vísindasamfélagsins er eining um það að bælingarmeðferðir hafi ekki áhrif á kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu einstaklinga sem látnir eru undirgangast þær en geti í staðinn valdið þeim verulegum og langvinnum skaða. Er þetta ein meginástæða þess að bælingarmeðferðir hafa verið bannaðar að viðlagðri refsiábyrgð í fjölda ríkja og nú vonandi einnig á Íslandi.

Meðferðir þær sem að framan er lýst falla undir skilgreiningu á hugtakinu „meðferð“ í frumvarpinu. Þannig yrði t.d. refsivert ef nauðung, blekkingum eða hótunum yrði beitt til að fá samkynhneigðan einstakling til að undirgangast skipulagða meðferð, sama hvort hún byggir á samtali, bæn eða líkamlegri íhlutun, í þeim tilgangi að gera viðkomandi gagnkynhneigðan.

Aftur vil ég vekja athygli á að skilyrði um nauðung, blekkingu eða hótun væri jafnframt ekki forsenda viðurlaga ef barn er látið undirgangast slíka meðferð. Eins væri refsivert á grundvelli ákvæðisins að öðrum skilyrðum uppfylltum ef trans einstaklingur, einstaklingur með ódæmigerð kyneinkenni eða einstaklingur sem tjáir kynvitund sína á óhefðbundinn hátt er látinn sæta slíkri skipulagðri meðferð í þeim tilgangi að breyta kynvitund eða kyntjáningu hans til samræmis við samfélagslegar staðalímyndir sískynja einstaklinga. Undir bælingarmeðferðir í skilningi ákvæðisins teljast þannig ekki ákvarðanir sem heilbrigðisstarfsfólk tekur í starfi sínu á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar og samræmast starfsskyldum þeirra. Undir bælingarmeðferðir í skilningi ákvæðisins teljast heldur ekki ákvarðanir sem heilbrigðisstarfsfólk tekur í starfi sínu á grundvelli laga og á grundvelli almenns siðferðis. Til slíkra meðferða telst heldur ekki aðstoð eða stuðningur við einstakling sem hefur sjálfur tekið upplýsta ákvörðun um að undirgangast kynstaðfestandi ferli eða tiltekna þætti þess. Það er nauðsynlegt að árétta þetta. Þess vegna tók meiri hlutinn í allsherjar- og menntamálanefnd ákvörðun um að árétta þetta á margan hátt í umræddu nefndaráliti til þess að þetta væri öllum ljóst.

Til að bregðast við athugasemdum refsiréttarnefndar um nánari afmörkun hugtaksins „meðferð“ og umboðsmanns barna um skýrleika refsiheimilda leggur meiri hlutinn til breytingartillögu þess efnis að orðinu „ógagnreynda“ verði bætt á undan orðinu „meðferð“ í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins.

Gagnreynd meðferð er meðferð sem byggist á læknisfræðilegum rannsóknum, viðurkenndum aðferðum og reynslu. Hugtakið „gagnreynd“ er m.a. að finna í 6. tölulið 1. mgr. 3. gr. laga um sjúkratryggingar þar sem það er notað til skilgreiningar á alþjóðlega viðurkenndri læknismeðferð sem og í 44. gr. sömu laga þar sem kemur fram að veitendur heilbrigðisþjónustu skuli að jafnaði byggja starfsemi sína á gagnreyndri þekkingu á sviði heilbrigðisþjónustu. Þeir skuli einnig fylgja faglegum fyrirmælum landlæknis og nýta eftir því sem við á faglegar leiðbeiningar hans, samanber lög um landlækni.

Hugtakið „gagnreyndri“ er einnig að finna í fleiri lögum. Með þessari breytingu á þessu frumvarpi, sem er auðvitað breyting á almennum hegningarlögum, er gert skýrt að þjónusta sem heilbrigðisstarfsfólk veitir í starfi sínu í samræmi við sínar starfsskyldur, í samræmi við lög og í samræmi við almennt siðferði, fellur þar af leiðandi ekki undir umrætt ákvæði. Það sama gildir um þjónustu og stuðning sem aðrir veita í tengslum við gagnreyndar meðferðir. Það er mikilvægt að árétta þetta en þetta er alveg skýrt.

Í öðru lagi er lögð til breyting er varðar refsimörk, sem kveðið er á um í 3. gr. frumvarpsins, til að samræma þau öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga, sér í lagi ákvæðum XXIV. kafla almennt og öðrum ákvæðum sem snúa að kynfrelsi og frjálsræði fólks. Á þeim grundvelli leggur meiri hlutinn til að refsing á grundvelli 1. mgr. 3. gr. verði sektir eða fangelsi allt að 2 árum, við 2. mgr. fangelsi allt að 4 árum og við 3. mgr. sektir eða fangelsi allt að 1 ári.

Þá leggur meiri hlutinn jafnframt til breytingu á gildistöku frumvarpsins og leggur til að gildistökunni verði seinkað til 1. janúar 2024, um næstu áramót.

Að öðru leyti vísast til ítarlegrar umfjöllunar um breytingartillögur í áliti meiri hluta allsherjar menntamálanefndar.

Frú forseti. Þá hef ég rakið innihald þessa nefndarálits og legg til, ásamt meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar, að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.