Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 122. fundur,  9. júní 2023.

almenn hegningarlög.

45. mál
[17:53]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætisandsvar. Ég nefndi það aðeins í ræðunni áðan að jú, jú, það eru sjónarmið um að við eigum ekkert að vera að horfa til annarra landa og sérstaklega kannski þegar þau hafa ekki sett sína löggjöf um málefnið. Við eigum bara að hafa frumkvæðið. Það er að sjálfsögðu sjónarmið. En í sumum málum hef ég nú reynt að horfa sérstaklega til Norðurlandanna, ég nefni útlendingamálin sem dæmi. Ég held að það væri bara gagnlegt að við hefðum einhvern umræðugrundvöll meðal norrænu ríkjanna um afstöðuna og hvernig menn sjá fyrir sér að þetta yrði gert. Ég held að það væri gott innlegg inn í þessa vinnu, en það er nú svo sem ekki aðalatriði í þessu og ekki aðalatriðið í mínum málflutningi. En það er gott að þetta kom fram.

Svo spurði hv. þingmaður um komu refsiréttarnefndar fyrir nefndina og afstöðuna þar. Það sem mér finnst vanta er að við hefðum fengið að hitta nefndina aftur eftir að þessar breytingar voru gerðar, hvort það væri þá litið svo á að þær breytingar sem voru gerðar væru fullnægjandi, sem dæmi. Mér finnst þetta vera það helsta sem hafi skort á í þessari umræðu. Umsögnin þykir mér mjög vönduð og það var að sjálfsögðu margt fróðlegt sem kom fram á þessum gestakomum til nefndarinnar þannig að í heildina var starfið í nefndinni mjög gott og nefndarmönnum og formanni hefur nú verið hrósað fyrir það og ég tek heils hugar undir það.