Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 123. fundur,  9. júní 2023.

almannatryggingar og húsnæðisbætur.

1155. mál
[19:16]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Til þess að við getum haldið í verðbólgubrjálæðið sem er í gangi hérna þá hefðum við þurft að hækka 1,5% meira en við erum að gera núna þannig að við hefðum þurft að hækka um 4,1%. Það er klifað á því ítrekað hérna hvað við höfum verið greiðvikin núna um áramótin. Það er lögbundið að um hver áramót, í byrjun janúar á hverju einasta ári, er miðað við vísitöluþróun ársins á undan og við hér erum lögþvinguð til þess að hækka eða breyta kjörum almannatryggingaþega í takti við það. Ég er orðin leið á því að það sé látið líta svo út hér að það sé alltaf verið að gera fólki einhvern rosalega mikinn greiða þegar við erum lögþvinguð til þess að láta almannatryggingar fylgja vísitöluþróun í landinu. En þetta er ekki nóg. Þetta er skref í rétta átt og Flokkur fólksins mun greiða atkvæði með því eðli málsins samkvæmt, en þetta hefði þurft að vera 4,1%.