154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:51]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kjarapakki Samfylkingarinnar liggur nú bara á heimasíðu flokksins. Þetta eru opinberar upplýsingar, pakki sem við lögðum fram síðasta haust, eða fyrir síðustu fjárlög, og svo verkefnalisti í vor. Við erum að tala um afmarkaðar aðgerðir sem snúa að ástandinu eins og það er í dag, ekki heildarendurskipulagningu á skattkerfinu sjálfu. Fjármögnunin á bak við þetta var m.a. að hækka fjármagnstekjuskatt úr 22% í 25%. Það er talað um að við getum fengið 5 milljarða út úr þessari aðgerð. Það er eitthvað sem fjármálaráðuneytið hefur sjálft skoðað og benti á að vegna breytinga í tengslum við reglur á fjármagnstekjuskatti myndi þessi breyting aðeins snerta tekjuhæstu 10% í landinu.

Við erum líka að tala um að taka til baka hluta af hækkun bankaskattsins á sínum tíma til að fjármagna þessar breytingar hjá okkur. Við höfum einnig talað fyrir álagi á stærstu útgerðirnar í landinu í því samhengi og að lokum, breytingar á hinu svokallaða ehf.-gati sem gerir fólki kleift að telja launatekjur fram til fjármagnstekna. Við höfum þannig verið mjög skýr með hvar við viljum sækja þessar tekjur til skamms tíma.