154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[11:00]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður nefnir hér í sinni ræðu og gagnrýnir í fjárlagafrumvarpi hæstv. fjármálaráðherra að tekjuhliðin sé ósnert og hv. þingmaður fór yfir í fyrra andsvari hlaðborð skattahækkana sem Samfylkingin boðar og er þá eingöngu verið að tala um skatta sem eru töluvert lítið hlutfall af heildarskatttekjum ríkisins. Virðisaukaskatturinn er þriðjungur af skatttekjum ríkisins, launaskattur á einstaklinga er um fjórðungur. Hefur hv. þingmaður engar áhyggjur af því að með svona gegndarlausum skattahækkunum, eins og Samfylkingin boðar sé verið að vega að verðmætasköpun í þjóðfélaginu, verið að draga þrótt úr atvinnulífinu, draga þrótt úr framleiðslunni um land allt, draga þrótt úr fyrirtækjum til að greiða fólki hærri laun?