154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[11:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst gera nokkuð alvarlegar athugasemdir við þá fullyrðingu hv. þingmanns að ríkisstjórnin láti sér í léttu rúmi liggja hvernig kjör þeirra sem minnst hafa milli handanna þróast milli ára. Við höfum beitt okkur sérstaklega fyrir því að veita gagnsæi um það hvernig kjaraþróun er hjá öllum á Íslandi inn á tekjusagan.is og þar getum við hreinlega flett öllum þessum fullyrðingum upp sem hv. þingmaður ber hér á borð um að þeir sem lægstir eru í tekjustiganum sjái alltaf minna og minna í lok mánaðar og spurt okkur hvort að þær fullyrðingar eiga sér einhverja samsvörun í raunveruleikanum. Raunveruleikinn er sá að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur vaxið í heilan áratug hjá öllum tekjutíundum, sérstaklega undanfarin ár. Þessari stöðu er ógnað í dag eins og við vitum vegna verðbólgunnar og ef við skoðum kaupmátt heimilanna að teknu tilliti til vaxtagreiðslna þá er það líka áhyggjuefni sem tengist beint verðbólgunni. En það er alrangt að ríkisstjórninni hafi ekki orðið neitt ágengt í því að styðja við kjaraþróun þeirra sem minnst hafa milli handanna. Það er bara rangt.

Ég vil líka leiðrétta það sem hér kemur fram hjá hv. þingmanni að það kæmi betur út fyrir bótaþega almannatrygginga að vera með einhvers konar eftiráuppgjör. Við viljum fyrir fram veita hækkanir í takt við verðbólguvæntingar næsta árs á bótunum, aðrar hækkanir sem eru að koma í fjárlögum eru vegna liðins tíma. Ef við skoðum hvernig þetta hefur komið út fyrir örorkuþega sem gerðir voru að umtalsefni hér þá sjáum við t.d. á þessu ári vegna hækkana sem urðu um áramótin og síðan aftur um eitt ár, að þá hafa bæturnar hækkað um 10,1% á þessu ári sem er umfram verðlagsþróun, 10,1% hækkun á þessu ári á bótum almannatrygginga þannig að kaupmáttur bótanna hefur vaxið, öfugt við það sem hv. þingmaður segir.