154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[12:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa nokkuð yfirgripsmiklu ræðu. Mig langar til að staldra við nokkur atriði. Í fyrsta lagi aðeins um stöðugleikann og mikilvægi hans og hv. þingmaður segir að í íslenskri hagsögu hafi verið mikill óstöðugleiki og það má alveg taka undir það. Þó hefur orðið mjög mikil breyting svona u.þ.b. frá árinu 2000. Við fórum í gegnum mikla fjármálakrísu og höfum farið núna nýjast í gegnum heimsfaraldur. En ef við skoðum t.d. tímabilið frá 2013–2020 þá var meðalverðbólga hér á landi 2,4%. Það gerðist allan þennan tíma einungis fjórum sinnum að verðbólgan fari út fyrir vikmörk Seðlabankans og það ástand stóð einungis í einn til þrjá mánuði. Tvisvar fór verðbólgan upp fyrir vikmörkin og tvisvar sinnum fór hún niður fyrir vikmörkin. Þess vegna vil ég halda því hér til haga að við höfum í nýlegri efnahagssögu okkar, bara síðastliðinn áratug, dæmi um langt skeið þar sem verðbólga var bara hófleg og vextir tiltölulega hóflegir. Það vill þannig til að akkúrat þennan áratug fór kaupmáttur á Íslandi gríðarlega vaxandi, kaupmáttur launa og kaupmáttur ráðstöfunartekna. Nánast samfellt skeið vaxandi kaupmáttar sem er stærsta lífskjaramál heimilanna í landinu.

Aðeins varðandi hagvöxtinn sömuleiðis. Hér er dregin upp sú mynd að þetta sé einhvern veginn allt í plati á Íslandi. Hagvöxtur vaxi vissulega mikið og tvöfaldist á tíu ára fresti en vegna þess að við erum með krónu þá einhvern veginn spillist þetta allt út og endar í ræsinu. Ef við skoðum samanburðarhæfar tölur milli landa og skoðum hagvöxtinn á Íslandi á mann í dollurum, kaupmáttarleiðrétt, þá erum við í 9. sæti OECD-ríkja. Þessi mikli hagvöxtur sem hefur orðið hér síðastliðna áratugi er grundvöllur að velsæld í landinu. Hann er grundvöllur þess að við getum haldið úti öflugu velferðarkerfi. (Forseti hringir.) Það er bara alrangt og alger sögufölsun að það hafi allt saman brunnið upp á báli gjaldmiðilsins.