154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[13:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það var búið að spenna bogann ansi hátt fyrir hrunið, það var komin ansi góð bóla. Það skorti á eða var ákveðið eftirlitsleysi þar í gangi, efnahagurinn þá var orðinn rosalega stór en innstæðan fyrir honum kannski ekkert gríðarlega mikil. Í kjölfarið á því má eiginlega segja að íslenskur efnahagur hafi náð botninum, skrapað eins langt niður á botninn og hægt var að hafa það, miðað við allt annað sem við erum með í gangi. Við erum vissulega rík þjóð með öflugar auðlindir þannig að ég hafði persónulega engar sérstakar áhyggjur af afkomu landsins til lengri tíma og hafði það heldur ekki vegna Covid-faraldursins. Við vinnum okkur smám saman út úr þessu af því að við erum öflug og auðug þjóð. En það er mjög eðlilegt að þegar við náum botninum á vissan hátt eins og við gerðum eftir hrunið að þá sé ekki hægt að fara neðar, það er mjög eðlilegt að það sé stígandi, upp á við frá botninum eins og hæstv. ráðherra var að lýsa. Það kemur ekkert á óvart svo sem að það hafi verið þannig, hverju sem það er að þakka. Ég veit ekki alveg hvort einhverjir geta tekið þar ábyrgð eða hrósað sér af. Þetta er mjög náttúrulegt. Ég held að það sé frekar þannig, þegar allt kemur til alls, að áhrif okkar hérna á Alþingi og ríkisfjármálanna séu í alvörunni miklu, miklu minni en stundum er látið í veðri vaka. Ég alla vega hlakka til þess að sjá betri útskýringar á því að ákveðin efnahagsþróun upp á við sé stjórnvöldum að þakka en aldrei efnahagssveifla niður á við, aldrei eftirlitsleysið sem bjó til bóluna sem sprakk í andlitið á okkur o.s.frv.