154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[13:22]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum fyrir. Hér fer fram góð umræða um fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp sem endurspeglar þá fjármálaáætlun sem kynnt var í vor.

Þrátt fyrir að verðbólgan hafi leikið okkur grátt og geri enn eru jákvæð teikn á lofti og verðbólgan er að lækka, sem gefur von um að stýrivextir lækki frekar en hækki. Afkoma ríkissjóðs hefur batnað langt umfram bjartsýnustu spár en gert er ráð fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs verði um 100 milljörðum kr. betri í ár en áætlað var við samþykkt núgildandi fjárlaga. Þá eru atvinnuhorfur góðar og atvinnuþátttaka, sem kallar á margar vinnandi hendur. Við verðum að sýna ábyrga hagstjórn og með samstilltu átaki mun takast að ná niður verðbólgunni.

Við gerð fjárlaga er það mikilvægt leiðarljós að standa vörð um félagslega innviði og verja þá velferð sem byggst hefur upp á síðustu árum. Það er grundvallaratriði að verja þau sem lakast standa í samfélaginu fyrir áhrifum verðbólgunnar, enda er jöfnuður í sjálfu sér ekki aðeins réttlætismál heldur líka mikilvægt hagstjórnarmál.

Heilbrigðismálin eru veigamikill þáttur í velferð almennings og jafnframt sá þáttur sem mestu máli skiptir fyrir fólkið í landinu. Eins og fram hefur komið hafa fjárveitingar til heilsugæslu í tíð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur aukist um 37% frá árinu 2017 á föstu verðlagi í takt við sérstaka áherslu ríkisstjórnarinnar um að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað heilbrigðiskerfisins.

Við erum í sókn þegar kemur að málefnum öryrkja og eldri borgara. Aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk árin 2023–2027, Gott að eldast, var samþykkt á Alþingi 10. maí síðastliðinn. Áætlun ráðuneytisins er fjármögnuð og gert er ráð fyrir 700 millj. kr. samtals á næstu þremur árum til að hrinda henni í framkvæmd. Unnið er að endurskoðun örorkulífeyriskerfisins og er góður gangur í þeirri vinnu og von á frumvarpi frá félags- og vinnumarkaðsráðherra á þessum þingvetri. Ef okkur tekst að sameinast um þessar mikilvægu kerfisbreytingar hér á Alþingi, eins og hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra sagði í þingsal í gær, þá verða þær gríðarlega mikilvæg skref til að draga úr fátækt og bæta lífsgæði stórs hóps íslensku þjóðarinnar. Það mun skila okkur réttlátara samfélagi og draga úr ójöfnuði. Allt eru þetta gildi sem við Vinstri græn stöndum fyrir.

Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2024 bætast við 270 millj. kr. vegna undirbúnings og innleiðingar á matskerfi örorku og starfsendurhæfingar. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028 er gert ráð fyrir að um 16 milljarðar kr. komi inn í kerfið á árunum 2025–2026. Jafnframt er gert ráð fyrir um 150 millj. kr. fjárveitingu til að efla stuðningsúrræði við fólk með mismikla starfsgetu. Það bætist við rúmlega 430 millj. kr. fjárveitingu sem kom inn árið 2023 í vinnumarkaðsaðgerðir í tengslum við heildarendurskoðun örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfisins.

Eins og fram hefur komið hefur okkur fjölgað umtalsvert síðustu ár, sem er vel. Útlendingar auðga samfélagið og menningu okkar. Heilt yfir hefur atvinnuþátttaka útlendinga verið mjög góð hér á landi og mikilvægt er að standa vörð um hana. Í ljósi þessa eru fjárheimildir til Vinnumálastofnunar auknar um 450 millj. kr. vegna íslenskunámskeiða fyrir flóttafólk og virkniúrræðis og atvinnuleitar. Fjárheimildir sem nýtast eiga í samninga vegna samræmdrar móttöku flóttafólks verða alls 900 millj. kr. Þá bætast við 2,3 milljarðar kr. vegna endurgreiðslu á félagsþjónustu sveitarfélaga vegna flóttafólks, svokölluð 15. gr. Þá er kveðið á um tímabundna aukningu á fjárveitingu vegna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd um 5 milljarða vegna aukins fjölda umsækjenda.

Það dylst engum að við í Vinstri grænum höfum og munum áfram setja umhverfis- og loftslagsmál á oddinn. Fagna ég því sérstaklega hvað umræðan um þessa málaflokka hefur með tímanum náð eyrum annarra flokka sem nú standa með okkur í VG að horfa til framtíðar með umhverfis- og loftslagsmálin að leiðarljósi. Þótt ekki sé um mikla aukningu á milli ára að ræða að þessu sinni er vert að halda til haga að frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við hafa framlög til málaflokksins aukist úr rúmum 17 milljörðum í rúmlega 30 milljarða, sem endurspeglar þær áherslur sem við í Vinstri grænum leggjum á umhverfismál og náttúruvernd.

Stuðningur og ívilnanir varðandi rafbíla var nauðsynlegt fyrsta skref í orkuskiptum landsmanna en í nýju fjárlagafrumvarpi eru þær ívilnanir smátt og smátt að fjara út og nú er komið að nýjum fasa þar sem gjöld aukast á rafbílaeigendur. Þetta eru mikilvæg skref sem styðja við áframhaldandi uppbyggingu í samgöngukerfinu en þar eru mörg brýn verkefni sem bíða. Með þessari nýju nálgun er einfaldlega verið að horfa til þeirrar sanngjörnu reglu að öll ökutæki taki þátt í rekstri kerfisins til að unnt sé að halda samgöngumannvirkjum við og byggja upp til framtíðar. Þetta tónar vel við mengunarbótaregluna sem ég hef alltaf stutt. Þeir sem menga eiga að borga.

Gert er ráð fyrir því að nýtt fyrirkomulag auki tekjur ríkissjóðs um 7,5 milljarða kr. árið 2024. Það er augljóst að tekjur ríkissjóðs af skattlagningu á eldsneyti og ökutæki hafa rýrnað mikið á undanförnum árum vegna breytinga á bílaflota landsmanna. Þeim fylgir jákvæður samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda. Hér er stundum talað eins og ekkert sé að gerast í orkuskiptum, en raunin er sú að Ísland er með næsthæst hlutfall rafbíla í heiminum þegar kemur að heimilum landsins. Við eigum enn langt í land en með stöðugum tækniframförum og nýsköpun í bland við markvissar aðgerðir ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur þokumst við áfram í þessari mestu áskorun samtímans.

Í anda Vinstri grænna ætla ég að tala aðeins meira um tekjuöflun. Nokkur mikilvæg skref varðandi tekjuöflun má finna í fjárlagafrumvarpinu og eru fingraför VG áberandi þegar litið er til aukinnar tekjuöflunar. Ferðaþjónustan hefur verið í örum vexti undanfarin ár og þrátt fyrir áföll eins og heimsfaraldur hefur stuðningur við greinina skilað sér í því að ferðaþjónustan er stöndug atvinnugrein á fleygiferð. Nú er komið að því að greinin leggi meira til samfélagsins og mun gistináttagjald verða endurvakið um áramót. Fjölgun skemmtiferðaskipa hefur fært okkur mikla aukningu ferðamanna og mun boðaður gistináttaskattur einnig ná til þeirra.

Það er mikilvægt að við styðjum við ferðaþjónustuna en á sama tíma þarf að hafa það hugfast að íslensk náttúra er auðlind sem okkur ber að vernda og varðveita. Ferðaþjónustan verður ekki sjálfbær til framtíðar nema við forgangsröðum og aðgangsstýrum inn á viðkvæm svæði. Við megum ekki ganga um of á gæðin sem eru undirstaða ferðaþjónustunnar. Sjálf hefði ég viljað sjá lengra gengið og að líkt og í öðrum löndum hefðum við hugrekki til þess að leggja gjald á alla okkar gesti við komuna til landsins, svokallað komugjald, til þess að auka fjármagn til uppbyggingar og verndar ferðamannastaða auk þess að styrkja innviði heilbrigðiskerfisins og efla löggæslu.

Það er lykillinn að réttlátu skattkerfi að aflögufærar atvinnugreinar leggi sitt á vogarskálar við uppbyggingu innviða og samfélagsins í heild. Hækkun tekjuskatts lögaðila er mikilvægt atriði í tekjuöflun fyrir árið 2024, en hann hækkar í 21%, enda hefur tekjuskattur lögaðila vaxið mikið, bæði í krónum og sem hlutfall af vergri landsframleiðslu frá þeim lágpunkti sem tekjuskatturinn náði í heimsfaraldrinum.

Fiskeldi hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár og er nú nánast í hverjum firði Austurlands og Vestfjarða. Mikið hefur verið fjallað um greinina eftir að svört skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út á árinu og ljóst að sú mikilvæga stefnumörkun í fiskeldi sem fram hefur farið í ráðuneytinu hefur varpað ljósi á þær miklu áskoranir sem eru í greininni. Þess vegna eru nú lagðar til 126 millj. kr. í aukið eftirlit með sjókvíaeldi. Það er verk að vinna hvað varðar öryggi og umhverfisvernd og fréttir af götóttum kvíum, blóðþorra og samráðsleysi við íbúa við áætlanir um uppbyggingu er ekki hægt að líta fram hjá. Verndun íslenska laxastofnsins er í uppnámi líkt og greint hefur verið frá í fréttum síðustu vikur eftir að gat kom á fiskeldiskví. Það er því mikilvægt að efla allt eftirlit með greininni og setja skyldur á fyrirtækin að standa betur að allri umgjörð.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að tekjur af fiskeldi muni aukast, sem eru góðar fréttir, en við skulum líka hafa í huga að þegar slík tekjuöflun á sér stað er mikilvægt að litið sé til nærsamfélaga og arður af greininni, sem hingað til hefur að mestu runnið úr landi til erlendra eigenda fyrirtækjanna, skili sér til uppbyggingar á svæðum og að sveitarfélögin sem valið hafa að byggja upp fiskeldi á sínum svæðum njóti sanngjarns hluta þeirra tekna sem skila sér í sameiginlega sjóði. Í þessu samhengi má benda á 193 millj. kr. aukningu í Fiskeldissjóð og mun fiskeldisgjaldið í sjóðinn hækka úr 3,5% í 5%. Það mun skila u.þ.b. 630 millj. kr. í sjóðinn og fer um þriðjungur af því til hlutaðeigandi sveitarfélaga, sem er vel.

Auðlindir hafsins eru sameiginleg eign þjóðarinnar og nýting þeirrar auðlindar þarf alltaf að byggja á sjálfbærni og rannsóknum. Í fjárlagafrumvarpinu eru lagðir til fjármunir til eflingar hafrannsókna og má nefna 180 millj. kr. varanlega fjármuni til Hafrannsóknastofnunar til þessa. Eins má nefna 200 millj. kr. tímabundið átak til að telja hvali og rannsaka samspil þeirra við vistkerfið, sem og 126 millj. kr. sem eru varanlegir fjármunir til að styrkja rannsóknir sem tengjast fiskeldi. Þeir fjármunir munu nýtast til ýmissa verkefna, svo sem áhættumats og rannsókna á laxalús, umhverfisáhrifum og burðarþoli. Þá eru Fiskistofu veittir fjármunir til að efla eftirlit með fiskveiðum.

Ef við lítum til landbúnaðarins þá stöndum við á tímamótum. Breyttar neysluvenjur og áhrif loftslagsbreytinga auk mikils hraða í tækniþróun krefjast þess að við horfum með nýjum áherslum til framtíðar. Það breytir ekki þeirri grundvallaráherslu að horfa þarf til matvælaöryggis þjóðarinnar. Búvörusamningar eru undanskildir aðhaldskröfu og munu því hækka í samræmi við verðlag að teknu tilliti til raunlækkunar sem byggð er inn í samninginn. Í janúar síðastliðnum voru greiddar út 272 millj. kr., sem var síðasti hluti svokallaðra sprettgreiðslna. Það eru góðar fréttir að aukning er í framleiðslu korns hér á landi og ánægjulegt að sjá niðurstöður rannsókna sýna að kostnaður við kornrækt er sambærilegur við nágrannalöndin. Ísland hefur aukinheldur forskot þar sem það býr yfir miklu frjósömu og ódýru ræktarlandi. Í þessu samhengi verður aðgerðaáætluninni Bleikum ökrum hrint í framkvæmd og eru ný útgjöld upp á 198 millj. kr. ætluð til þess. Framlögin verða komin í 500 millj. kr. eftir þrjú ár.

Áskoranir í landbúnaði eru margar og ekki er hægt að láta hjá líða að nefna sauðfjárrækt og þær hörmulegu afleiðingar sem riðuveikin hefur haft á íslenskan sauðfjárbúskap, bæði fyrr og nú. Settar verða 110 millj. kr. í innleiðingu verndandi arfgerða gegn riðuveiki og þar með tryggjum við fjármagn í baráttunni við þennan vágest.

Húsnæðismálin eru brýn. Til skamms tíma höfðu nokkrir þættir mikil áhrif á húsnæðismarkaðinn. Lágvaxtaskeiðið á tímum heimsfaraldursins, sem kom til vegna farsællar hagstjórnar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, ýtti undir fjárfestingu á húsnæðismarkaði þegar hennar var þörf. Þá hefur mikil fólksfjölgun og fjöldi íbúða sem leigður er út vegna ferðaþjónustu á Airbnb áhrif á framboðshliðina. Mikilvægt er að finna lausnir á þeirri stöðu sem uppi er. Í ágústmánuði árið 2022 voru um 4.600 heimili í skammtímaleigu vegna ferðaþjónustu, þar af voru 52,8% á höfuðborgarsvæðinu. En á sama tíma hefur nýbyggðum íbúðum fjölgað. Eftir sem áður er mikilvægt að stjórnvöld stígi inn af festu, eins og boðað hefur verið, til að bæta húsnæðisöryggi. Sérstaklega þarf að huga að lausnum til handa þeim sem búa undir tilgreindum tekju- og eignamörkum. Í því tilliti er stefnt að því að tvöfalda stofnframlög til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins og byggja 1.000 íbúðir árin 2024–2025. Með stuðningi ríkisins verða þær 2.000. Þá er einnig áformað að horfa til frekari fjárheimilda til hlutdeildarlána sem nýtast ekki síst ungu fólki sem er að koma inn á fasteignamarkaðinn.

Í raunhæfri og ábyrgri fjármálastefnu er nauðsynlegt að fara í aðhald þegar svo ber undir. Það er flókið, en forgangsraða þarf mikilvægustu málaflokkunum fyrst. Eins og áður var komið inn á er í þessu fjárlagafrumvarpi staðið vörð um heilbrigðiskerfið og framlínustarfsfólk.

Hvað varðar aðhaldsaðgerðir þá verð ég að segja að þrátt fyrir skilning minn á stöðunni hef ég talsverðar áhyggjur af því að dregið verði úr kostnaði innan stofnana. Sameiningar stofnana geta verið gagnlegar og skilað bæði hagkvæmari rekstri og betri þjónustu. Við höfum nýlegt dæmi af vel heppnaðri sameiningu þegar Landgræðslan og Skógræktin runnu saman í Land og skóg. Einnig má nefna sameiningu Vinnumálastofnunar og Fjölmenningarseturs. Í báðum tilfellum mun sameiningin efla störf og verkefni málaflokkanna, en áhyggjur mínar lúta að þeim sameiningum sem fyrirhugaðar eru á ríkisstofnunum og að þeir málaflokkar sem undir eru séu í hættu.

Við í VG viljum standa vörð um íslenska minjavernd og eru á okkar málaskrá tvö þingmannamál er það varðar; annað um skráningu menningarminja en hitt um skip og báta, en málefnið er órjúfanlegur hluti af sögu lands og þjóðar. Í fjárlagafrumvarpinu er áætlaður sparnaður við sameiningu stofnana en það má ekki verða á kostnað minjaverndar. Sama saga er svo innan menntakerfisins eins og umræður undanfarinna daga hafa sýnt okkur. Sameiningar framhaldsskóla geta ekki verið á forsendum hagræðingar að óígrunduðu máli og í andstöðu við starfsfólk, nemendur og að mér sýnist samfélagið allt.

Virðulegi forseti. Mannréttindamál hafa verið mikið í deiglunni undanfarið líkt og hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir kom inn á í stefnuræðu sinni í gær. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur stuðningur við málaflokka sem falla undir mannréttindi stóraukist og á þeirri braut verður áfram haldið. Öflugur stuðningur við hagsmunasamtök hinsegin fólks hefur skipt sköpum, ekki síst þegar við horfum upp á mikla afturför víða um heim þegar kemur að réttindum þessa hóps.

Virðulegi forseti. Ég hef hér farið yfir stöðuna; tekjuöflun, aðhald og ábyrga efnahagsstjórn. Þetta fjárlagafrumvarp endurspeglar þá fjármálaáætlun sem kynnt var í sumar og ber þess merki að mörg jákvæð teikn séu á lofti. Okkur á Alþingi er falin mikil ábyrgð og ég veit að við öll, sama hvar í flokki við stöndum, berum hag almennings fyrir brjósti. Tökum saman höndum og vinnum áfram að góðum málum með jöfnuð og félagslegt réttlæti að leiðarljósi.