154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[13:59]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Í stuttu máli er hægt að kalla þessa fjárlagaumræðu, 1. umræðu alla, endurtekið efni. Endurvinnslan er svo mikil að þegar ég skoðaði ræðu mína frá því í fyrra sá ég að hana get ég endurflutt. Það segir töluvert mikla sögu af stöðunni.

Nú segir hæstv. fjármálaráðherra frá því að hann hafi vanmetið krafta verðbólgunnar. Frá þessum orðum fjármálaráðherra var greint á vef Ríkisútvarpsins. Þetta segir ráðherrann þrátt fyrir að allir þeir sem tjáðu sig um frumvarpið í fyrra, aðilar vinnumarkaðarins allir sem einn og allir þeir sérfræðingar sem komu t.d. fyrir fjárlaganefnd en tjáðu sig líka opinberlega, hafi varað við þessu. Raunar gekk Seðlabankinn svo langt, að mig minnir síðustu jól, að segja ríkisstjórnina beinlínis gera vinnu hans við að ná verðbólgunni niður erfiðari. Í stjórnmálum hlýtur það að vera ákveðin list að geta hlustað.

Núna erum við aftur og enn þá í þessari stöðu með verðbólguna. Vissulega hefur hún aðeins minnkað í sumar og það er sannarlega óskandi að framhald verði á því, en við sáum samt eftir afgreiðslu fjárlaga og aftur eftir afgreiðslu fjármálaáætlunar mjög skýrar vísbendingar um að ekki þyki nóg að gert. Seðlabankinn heldur áfram að hækka vexti, sem ég held að hljóti að teljast vera dómur um það að ríkið sé ekki að gera sitt. Við hlustuðum síðan á hæstv. fjármálaráðherra í sumar tala með orðalagi eins og því að hann þvælist ekki fyrir Seðlabankanum eða vinni ekki gegn honum. En ég sakna þess alltaf að heyra hann segja það berum orðum og fullum fetum að hann ætli að vinna með Seðlabankanum, ekki bara þvælast ekki fyrir. Reyndar heyrðum við líka sama ráðherra segja frá því, að mig minnir í lok sumars, að það sé strangt til tekið ekki hlutverk hans að vinna gegn verðbólgunni.

Þótt af nógu sé að taka í þessari umræðu þá langar mig að leggja áherslu á þrjá punkta í 1. umræðu. Í fyrsta lagi vil ég nefna ríkisútgjöldin sjálf. Þau eru mikil og svo mikil að þau magna upp verðbólguna sem er að sliga heimilin og fyrirtækin í landinu. Hér heyrum við gjarnan söguna af því að ástæða útgjaldanna sé heimsfaraldur, en vandamálið er auðvitað að kominn var faraldur í fjárlög þessarar ríkisstjórnar löngu áður en heimsfaraldurinn skall á.

Í öðru lagi er það áhyggjuefni að mér sýnist sem millistéttin verði skilin eftir með þungann af byrðunum og þungann af vaxtahækkunum. Hún borgar brúsann en virðist ekki eiga að fá stuðning frá stjórnvöldum í gegnum þetta tímabil.

Í þriðja lagi er það svo hagvöxturinn sem ég nefndi í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra í morgun. Fjármálaráðherra nefndi líka hagvöxtinn í gærkvöld, þennan mikla hagvöxt, en það er auðvitað þannig að þegar hagvöxturinn er skoðaður með tilliti til fólksfjölgunar á Íslandi, sem er gríðarlega mikil, er hagvöxturinn lítill sem enginn þegar við skoðum hvernig hann er á mann. Sú saga af hagvexti lítur öðruvísi og töluvert verr út.

Aftur ætla ég að leyfa mér að nefna, því að við erum og hljótum að eiga að vera að ræða stóru myndina við 1. umræðu fjárlaga, ágæt skrif Morgunblaðsins í morgun, t.d. í leiðara þar sem bent er á hið augljósa, að það vanti af hálfu ríkisstjórnarinnar að ræða stóru myndina; heildartekjur, heildarútgjöld, heildarafkomu og ævintýralega háan vaxtakostnað ríkisins. Undan þessu er kvartað í Morgunblaðinu og við í Viðreisn höfum svo sem líka verið á svipuðum slóðum í okkar gagnrýni því að það að tala um frumjöfnuðinn og afkomubatann án þess að setja það í samhengi við heildarniðurstöðu er að segja hálfa söguna. Það er stóra myndin sem skiptir máli þegar við erum að ræða um lífskjör og lífsgæði fólksins á Íslandi, aðstæður og umhverfi fyrirtækja. Í því samhengi vil ég minna á þær fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar núna að hækka skatt á lögaðila um 1%.

Með vaxtakostnaðinn þá blasir auðvitað við að þegar útgjaldaliðurinn vaxtakostnaður er jafn sturlað hár og hann er þá hefur það áhrif á getu ríkisstjórnarinnar til að verja innviði, bæta grunnþjónustu og fjárfesta til framtíðar.

Ef við horfum fyrst á útgjöld ríkisins þá sýnist mér að þau verði 127 milljörðum kr. hærri en á síðasta ári. Það setur auðvitað fyrirætlanir um 17 milljarða kr. aðhald í mjög skýrt samhengi. Þetta hefur í sjálfu sér verið sagan alla tíð hjá þessari ríkisstjórn og ráðgátan er kannski ekki síst sú hvernig staðan getur samt verið sú sem hún er hvað varðar þjónustu fyrir fólkið í landinu. Útgjöld aukast en þjónustan batnar ekki. Þarna er ég að vísa í það sama og ég nefndi eftir stefnuræðuna í gærkvöld, grunnþjónustuna og myndina eins og hún lítur út hvað varðar heilsugæslu, stórt hlutfall þjóðar sem ekki er með heimilislækni, hjúkrunarheimilin og öldrunarþjónustu. Útgjöld hafa verið að aukast að meðaltali um einhver 9% á hverju ári hjá ríkisstjórninni og samt er staðan í grunnþjónustunni þessi. Þá verður að spyrja þeirrar spurningar aftur og aftur: Í hvað fara peningarnir eiginlega? Hvernig má það vera að útgjaldaaukningin til heilbrigðismála sé sú sem hér er verið að tala um án þess að almenningur finni fyrir því að þjónustan sé að batna?

Seðlabankinn biðlar til hæstv. fjármálaráðherra um að styðja sig í baráttunni gegn verðbólgunni og sérfræðingar hafa varað við því lengi að útgjaldavöxtur ríkissjóðs muni kynda undir verðbólgubálið. Hvað hefur líka gerst? Nákvæmlega það. Fyrir vikið er verðbólgan enn allt of há og það er áhyggjuefni að markaðurinn gerir ráð fyrir því að hún verði há áfram og til lengri tíma. Þess vegna er svo mikilvægt að stjórnvöld fari í það verkefni af festu að sýna aðhald og ábyrgð, því að það skiptir máli og er sjálfstætt vandamál að verðbólguvæntingar og verðbólguhorfur eru þær sem þær eru. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að tímabilið verði langt og auðvitað skiptir það máli fyrir viðbrögðin hvort við erum að horfa á stutt tímabil eða langt. Fjórði stærsti útgjaldaliður ríkisins, vaxtakostnaðurinn, er rúmlega 110 milljarðar kr., upphæð sem er hærri en fjárframlög til háskólanna, fjölskyldumála og samgangna. Því gengur auðvitað ekki í ábyrgri umræðu um fjárlög að ræða ekki um skuldir og kostnaðinn af þeim, því að innviðir og þjónusta við fólkið í landinu líða fyrir það að staðan sé sú sem hún er.

Það er talað um að halli ríkissjóðs verði 46 milljarðar á árinu ef bjartsýnustu spár ganga eftir. Þegar verið er að tala um halla upp á 46 milljarða þá er það með inni í myndinni að ríkisstjórninni takist að fara samhent í gegnum það verkefni að selja Íslandsbanka. Áður þarf að leggja niður Bankasýslu og innleiða nýtt sölufyrirkomulag og þá verður hægt að selja. Myndin af heildarniðurstöðunni er auðvitað umtalsvert dekkri ef ekki verður af sölunni. Síðan er það punktur um stöðuna að bankasala færir ríkinu tekjur í eitt sinn, einskiptistekjur, og þessar tekjur á annaðhvort að nýta til að greiða niður skuldir eða í fjárfestingu sem skilar sér til framtíðar, ekki í áframhaldandi hallarekstur ríkissjóðs og ekki í rekstur sem bætir tugmilljörðum við útgjöld síðasta árs. Þetta er líka endurtekin gagnrýni á þessa ríkisstjórn úr öllum áttum, að nýjar tekjur fara bara í ný útgjöld. Það er aldrei verið að búa í haginn. Viðreisn lagði í fyrra fram ákveðnar tillögur um aðhald og niðurgreiðslu skulda hins opinbera um 20 milljarða kr. Það þótti ekki mikið þá en hefði haft þýðingu. Til samanburðar má nefna núna 17 milljarða kr. aðhaldskröfu ríkisstjórnarinnar.

Hvað varðar millistéttina og millitekjuhópinn, sem er punktur sem ég vil leggja sérstaka áherslu á, þá verður að horfa til þess að sá hópur ber mjög þungar byrðar í þessu ástandi. Ríkisstjórnin talar um þensluna og um afkomubata, sem stafar reyndar fyrst og fremst af þenslunni. Sama þensla er að skila heimilunum í landinu endurteknum vaxtahækkunum. Ríkissjóður finnur fyrir afkomubata, heimilin fá á sig vaxtahækkanir. Síðan eru fyrirtæki í landinu sem gera upp í erlendri mynt og finna auðvitað minna fyrir þessu ástandi en aðrir. Það eru fjölskyldur landsins, fyrstu kaupendur, ungar barnafjölskyldur og fólk sem er á þeim hluta æviskeiðsins að útgjöld eru mikil og þung — matarkarfan er há — sem finnur fyrir því hvernig húsnæðislánin eru að umturnast. Fólk sem gat fest vexti á besta mögulega tíma er núna að fá á sig vaxtaflóðið. Þegar ég lét kanna það í fjárlaganefnd í fyrra og óskaði eftir upplýsingum um það frá Seðlabankanum hver hlutföllin væru þarna að baki þá kom í ljós að fjórðungur lántakenda, fjórðungur heimila sem var með lán á annað borð, var með óverðtryggt lán á breytilegum vöxtum. Þetta er mjög stór hópur. Síðan er það þessi hópur sem dettur inn í ár og annar á næsta ári.

Fjölskyldur með verðtryggð lán eru ekki í góðri stöðu heldur því að þær sjá höfuðstólinn hækka og horfa upp á verðbólguna éta upp það sem fólk á í eigninni. Stýrivextir eru, ótrúlegt en satt, að nálgast rússneskt vaxtastig. Tugþúsundir Íslendinga, manna og kvenna, finna fyrir þessu ástandi og það bitnar mjög hart á ungu fólki og barnafjölskyldum. Ég get ekki séð að fjárlagafrumvarpið geymi svör fyrir þennan hóp. Það er mikilvægt, gott og jákvætt, og við studdum það, að ríkisstjórnin fór í það í fyrra að koma til móts við tekjulægstu hópana. En mér sýnist sem millistéttin verði skilin eftir núna, aftur, og hún er ekki vel sett í þessu ástandi. Fyrst ríkisstjórnin gerir það ekki, en ég bind nú vonir við að breyting verði þar á, þá mun Viðreisn aftur leggja fram tillögur um að styðja við þennan hóp, tillögur um vaxtabætur og húsnæðisbætur til að verja barnafjölskyldur og fyrstu kaupendur.

Varðandi þennan punkt sem ég nefndi, að ákveðin fyrirtæki geri ekki upp í íslenskum krónum og taki þar af leiðandi ekki þetta högg á sig, þá heyrir maður stundum að fólk undrast þessi sjónarmið Viðreisnar. Ég hef heyrt hæstv. fjármálaráðherra tala með þeim hætti og aðstoðarmaður hans fyrrverandi gerði það líka í umræðum eftir stefnuræðuna í gær. Þar er auðvitað verið að snúa þessari umræðu okkar á haus á dálítið fyndinn hátt, því að varla getur það komið mönnum á óvart að Viðreisn hafi stutt það á sínum tíma að fyrirtæki fái að gera upp í annarri mynt en krónunni. Það er sannarlega ekki punkturinn. Við viljum að fleiri búi við þessi tækifæri og ég held að hæstv. fjármálaráðherra átti sig á því meginstefi, nóg fáum við að heyra að við tölum ekki um annað en evru. Ég hugsa að Viðreisn væri síðasti flokkurinn til að gagnrýna það að fyrirtæki hafi fengið að njóta þess að gera upp með þessum hætti. Við erum einfaldlega að benda á það að á meðan þetta er ekki staðan hjá öllum þá verður staðan sú sem hún er. Fátt myndi hafa jafn jákvæð áhrif á hag almennings á Íslandi og upptaka evru og í því sambandi má kannski segja: Hver hefur sinn djöful að draga og krónan er þungbær djöfull fyrir millistéttina í landinu í dag.

Varðandi hagvöxtinn þá heyrum við mikið að Ísland sé á fullri ferð og að hvergi sé meiri hagvöxtur en á Íslandi, og hagvöxtur er sannarlega mikill hér. Ég sakna þess alltaf að heyra nefnt hvað býr þar að baki, þ.e. mikil fólksfjölgun og síðan það að hagvöxturinn er að miklu leyti drifinn áfram af ferðaþjónustunni. Þegar leiðrétt er fyrir fólksfjölgun er myndin af hagvextinum önnur. Þetta skiptir máli. Hagvöxtur eykst en hagsældin kannski ekki. Framleiðnin fylgir ekki vextinum. Við þurfum að brauðfæða fleiri og fleiri íbúar þurfa þak yfir höfuðið. Eins og ég hef áður nefnt þá finnst manni stundum eins og hér sé verið að setja stærri súpupott á borðið en búið er að þynna súpuna með vatni.

Afkomubatinn sem hæstv. fjármálaráðherra stærir sig af byggist á þessari þenslu og þessum hagvexti og bókhald ríkisins lítur sannarlega betur út vegna hennar. En hvað gerist þá þegar ríkið nær tökum á þenslunni? Er þessi staða sjálfbær í því samhengi þegar bætt afkoma byggist á þensluástandi? Við munum halda áfram að leggja áherslu á að það þurfi að halda þéttar um veskið og setja hagsmuni fólks í forgang. Við höfum ekki efni á stöðnun þegar framleiðni þjóðarinnar stendur ekki undir útgjöldum ríkisstjórnarinnar. Ég held að það þurfi að horfa á stöðuna þannig að þótt við séum vissulega að afgreiða fjárlög núna til eins árs, eins og jafnan, þá ættum við í leiðinni að spyrja okkur að því hvaða samfélag börnin okkar munu erfa. Hvernig mun þjónustan líta út eftir 10, 20 eða 30 ár? Hvernig á þekkingariðnaður t.d. að dafna þegar efnahagurinn er undirlagður af sveiflum og fyrirsjáanleikinn er lítill sem enginn? Er þetta breyta sem við höfum efni á að líta fram hjá? Hvernig á ungt fólk að búa sér heimili þegar uppbygging heldur ekki í við íbúafjölda?

Húsnæðismálin eru, eins og við þekkjum öll hér í þessum sal, mjög stór breyta í efnahagsmálunum og við erum að sigla inn í alvarlega stöðu. Í Reykjavík býr um þriðjungur þjóðarinnar og borgin stendur undir um helmingi íbúðauppbyggingar, en við þurfum að sjá meiri kraft um allt land. Hvernig á að tryggja að innviðirnir okkar séu efldir í takti við uppgang ferðaþjónustunnar þegar þetta er staðan? Eru einhver þolmörk á því hvað ferðaþjónustan á að vera stór? Hver er óskastaðan um fjölda ferðamanna? Hversu hratt á þessi atvinnugrein að vaxa? Kæmi til álita að fara í aðgerðir til að dreifa ferðaþjónustunni betur um byggðir landsins, í samhengi við innviðina á höfuðborgarsvæðinu?

Fjárlagafrumvarpið í ár hefur, með þessar stóru spurningar sem eru undirliggjandi, meiri þýðingu en oft áður. Við erum, rétt eins og við vorum að ræða um í fyrra, að glíma við verðbólgu. Við erum að afgreiða fjárlög í aðdraganda erfiðra kjarasamninga og í því samhengi að staða heimila er að þyngjast vegna hækkandi vaxta. Það að sitja hjá í aðgerðum mun hafa afleiðingar. Þegar stjórnvöld gera of lítið í aðgerðum gegn verðbólgu þá gerir það kjaraviðræður erfiðari.

Eins og ég nefndi áðan liggur hér fyrir frumvarp sem hljóðar upp á rúmlega 46 milljarða kr. halla. Merkilega lítið er rætt um þennan halla og það er talað um að afkoman sé betri en reiknað hafði verið með. Nú heyrir maður þingmenn Sjálfstæðisflokksins hér í ræðustól og í fjölmiðlum tala um að þeir óttist útgjaldasuð frá þinginu. Það er eins og þeir gleymi því að Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram frumvarp ár eftir ár með halla, algerlega óháð því hverjar efnahagsaðstæður eru. Það er eins og þeir gleymi því að það er beinlínis markmið ríkisstjórnarinnar og hæstv. fjármálaráðherra að reka ríkissjóð með halla í einhver níu eða tíu ár. Það þarf að ræða það af mikilli alvöru hvað það er samfélaginu dýrkeypt að skulda, og skulda til lengri tíma. Það kostar að skulda og það þekkja heimilin á Íslandi vel.

Það hefur líka afleiðingar í för með sér að flytja vandann yfir á næstu ríkisstjórn. Ríkið hefur auðvitað stóru hlutverki að gegna við að halda aftur af verðbólgunni en er aftur að stíga að mér sýnist of lítil skref. Ég vona að það mat sé rangt en ef það er rétt þá eru það fjölskyldur landsins sem fá reikninginn af aðgerðaleysinu. Af einhverri ástæðu, þrátt fyrir að við afgreiðum fjárlög, fjármálaáætlanir og mikið sé talað, hefur Seðlabankinn engu að síður hækkað stýrivexti fjórtán sinnum í röð. Auðvitað ætla ég ekki að standa hér og tala þannig að ríkisstjórninni sé einni um allt að kenna. En hvar voru markmiðin þegar síðasta fjármálaáætlun var afgreidd? Hvar voru töluleg markmið um það hvers væri að vænta um árangur? Hvers vegna gerist það að Seðlabankinn heldur áfram að hækka stýrivexti? Í allt sumar hefur þessi erfiða staða verið til umfjöllunar og ört hækkandi vextir á húsnæðislánum. Þar sem fjárlagafrumvarpið setur í grunninn sömu svör á dagskrá og gert var í fyrra, þar sem árangurinn gagnvart verðbólgu var ekki mikill, þá velti ég fyrir mér hvort ekki sé eðlilegt að við setjum spurningarmerki við árangurinn núna.

Ég nefndi skatta í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra í morgun og þá staðreynd að Íslendingar greiða háar fjárhæðir í skatta og lífeyri. Á árinu 2021 námu skatttekjur hins opinbera, að viðbættu framlagi í lífeyrissjóði, um 45% af landsframleiðslu. Einungis Danmörk var hærri á þennan mælikvarða á því ári. Auðvitað skiptir máli að hér er verið að taka saman skatta og lífeyri, eins og hæstv. fjármálaráðherra benti á, en gleymum því ekki að mörg lönd fjármagna lífeyriskerfið með gegnumstreymi og þess vegna er eðlilegt að telja sjóðsöfnunina með. Svo hár skattur á að skila heilbrigðum opinberum rekstri sem stenst samanburð við kerfi annars staðar á Norðurlöndum, en það er ekki niðurstaðan í dag.

Í lokin langar mig aðeins að ræða stuttlega um heilbrigðismálin, sem eru jú stærsti liður fjárlaganna og sá málaflokkur sem þjóðin er í öllum könnunum og mælingum sammála um að sé mikilvægastur. Almenningur er einhuga um að vilja bæði verja hann og efla. Hér blasir við ákveðinn vandi sem þarf að bregðast við strax og þarna sjáum við að þetta spilar allt saman. Það þarf að tækla verðbólguna til að geta staðið undir heilbrigðiskerfinu til framtíðar. Það þarf að líta til þess hvað það kostar að skulda til að geta staðið undir heilbrigðiskerfinu til framtíðar. Mönnunarvandinn blasir við, hjúkrunarfræðingar eru að hverfa til annarra starfa, heilbrigðisstarfsfólk er í dag eftirsóttasti starfskraftur heims og við þurfum að standast samkeppni að utan. Viðreisn hefur áður talað fyrir þjóðarsátt um þessar kvennastéttir og bætt kjör þeirra, þar á meðal hjúkrunarfræðinga. Það gæti verið liður í því að styrkja heilbrigðiskerfið til lengri tíma litið og höfum við einmitt lagt fram þingsályktunartillögu um þessi skref.

Hér verð ég líka að lýsa furðu minni yfir þeim tölum sem við heyrum um stöðuga aukningu í heilbrigðismálin en að grunnþjónustan sé á sama tíma sú sem hún er. Auðvitað eru fjárveitingar ekki eina svarið og þurfum við að geta rýnt kerfið sömuleiðis og horft á tækifærin til umbóta. Við munum fylgjast sérstaklega með þessum málaflokki í gegnum fjárlagavinnuna alla.

Ríkisstjórnin talar eðlilega mikið um að verðbólga sé ekki bundin við Ísland og það er hún svo sannarlega ekki. Ég ætla þó að fá að leyfa mér að setja fram sömu spurningu og ég gerði í gær um það hvers vegna vextir á Íslandi þurfa að hækka margfalt meira hér til að taka á og tækla verðbólgu sem er ekki endilega hærri en annars staðar. Að fara vel með fjármuni ríkisins og almennings er auðvitað líka pólitískt hagsmunamat um að velja gjaldmiðil sem auðveldar okkur lífið í stað þess að gera almenningi stundum lífið erfiðara, gjaldmiðil sem auðveldar fólki að eignast húsnæði og gerir vaxtaumhverfið á Íslandi sambærilegt við löndin í kringum okkur. Það á að vera markmið til lengri tíma litið. Þetta er ekki spurning sem getur leyst úr læðingi nein svör fyrir fjárlagavinnuna núna, en hluti af því að hafa metnað fyrir Íslandi hlýtur að vera að búa í haginn til lengri tíma litið. Það er gott að hallinn er að minnka, hann mætti minnka meira og ég myndi vilja sjá markvissari skref um hagræðingu í ríkisrekstri því að með henni held ég að til lengri og skemmri tíma litið munum við ná betri árangri í að verja lífskjör, samkeppnishæfni þjóðarinnar og um leið velferðina.

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að það er enginn ágreiningur á Alþingi um það að í þeirri vinnu sem fram undan er stendur þingið sameinað um að vilja undanskilja heilbrigðiskerfið, löggæslu og þá málaflokka sem ríkisstjórnin hefur sérstaklega tiltekið. En það má alveg fara í það að skoða hvort einhver verkefni þarna megi missa sín. Við eigum að velta við öllum steinum. Fyrir þá aðila sem fá á sig hagræðingarkröfurnar þá er kannski ekki augljóst að það sama gildi um alla. Auðvitað er þetta erfiðari vinna að fara í, að velta við hverjum steini og rýna það hvaða verkefni geta mögulega farið út, að við séum að hagræða í verkefnum en ekki bara að klippa á þjónustu. Til að fara í svoleiðis verkefni þarf auðvitað samhenta stjórn.

Pólitíkin hérna í dag snýst kannski um frekar einfalda en mjög mikilvæga spurningu sem er, þrátt fyrir að við séum að afgreiða fjárlög til eins árs: Hvernig viljum við að samfélagið okkar sé? Hvernig virkar samfélagið okkar best? Hvernig viljum við takast á við verkefnin og hvernig ætlum við líka að búa í haginn fyrir verkefni næstu ára? Svörin finnast ekki bara í frumjöfnuðinum og ekki bara í þeim hagvexti sem við búum við í dag. Svörin finnast heldur ekki í því að láta millistéttina borga brúsann eins og hér virðist vera uppleggið.

Að lokum vil ég segja að það er mikil vinna fram undan í fjárlaganefndinni og ég hlakka til að fara í þá vinnu og hlakka til samstarfs við verðandi nýjan formann nefndarinnar og vona að okkur takist að fara inn í þá málaflokka sem ég hef sérstaklega nefnt.