154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:29]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Ég hefði viljað sjá það gerast þegar fjármálaáætlunin var afgreidd núna í vor eða sumar og þegar fjárlög síðasta árs voru afgreidd, að ríkisstjórnin væri skýr til þess að hafa áhrif á væntingar um hver markmiðin væru — skýrari markmið. Jú, myndum við ekki öll vilja sjá verðbólgu fara niður? Það vilja það allir. Segja hver markmiðin eru, hvenær ríkisstjórnin væntir árangurs til að geta haft áhrif á væntingar, því að auðvitað hlýtur maður að staldra við það að þegar fjárlög eru afgreidd sem hafa það meginmarkmið að kæla verðbólgu, þá halda vextir áfram að hækka. Þegar fjármálaáætlunin er afgreidd sem hefur það meginmarkmið að kæla verðbólgu, hvað gerist? Stýrivextir hækka. Það vantar eitthvað inn í samtalið þarna. Ég held að það vanti náttúrlega fyrst og fremst aðgerðir (Forseti hringir.) en ég velti þessu upp. Kannski væri þetta stef og taktur sem ætti að heyrast skýrar frá hæstv. fjármálaráðherra núna.