154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:35]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir spurninguna og einkar gott samstarf í fjárlaganefnd. Ég held nefnilega, eins og ég nefndi hérna áðan, að það sé ekki ágreiningur um það hvaða þjónustu þurfi að taka algerlega til hliðar í öllu samtali um hagræðingu, heilbrigðiskerfið þar á meðal. Ég myndi alltaf tala fyrir löggæslunni og réttarkerfinu þar og síðan eru þarna aðrir póstar líka. En af þeim þáttum sem fara í hagræðingu, þá blasir ekki við að það sé sama svarið fyrir alla. Við eigum að geta farið markvisst í það að skoða hvaða verkefni geta farið út þannig að við séum að taka út mögulega einhver ónauðsynleg verkefni einhvers staðar — hér er alla daga verið að setja lög með nýjum og nýjum verkefnum — og við séum að skoða hvaða verkefni eru nauðsynleg og hvaða verkefni eru síður nauðsynleg til að verja þjónustu. Þá værum við mögulega ekki að hlusta á svona ræður eins og við gerðum í gær hjá hæstv. menntamálaráðherra sem sagði það berum orðum að hann er kominn í það núna að sameina framhaldsskóla vegna þess að hann er kominn upp að vegg með kröfur frá fjármálaráðherra. Það er nú kannski líka bara mjög skýr spegill á sundraða ríkisstjórn.