154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:38]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Kannski þessu tengt með þjónustuna, þá hef ég stundum staldrað við þegar við erum að fá frumvarp inn í nefndirnar þar sem kemur stöðluð setning um að það hafi ekki í för með sér aukinn kostnað. Þá hefur frumvarpið ekki í för með sér aukinn kostnað vegna þess að þá þegar er starfandi einhver ríkisstarfsmaður sem á að taka við þessum nýju verkefnum. Það er einhvern veginn aldrei sú hugsun að diskurinn sé kannski fullur hjá þeim ríkisstarfsmanni sem á að taka við verkefnunum og aldrei neitt tekið af, bara viðbætur. Það felur líka í sér kostnað að haga málunum með þeim hætti. Þess vegna held ég að það sé rangur mælikvarði, eða það sé mjög lítil vinna á bak við þessar greiningar sem við fáum inn í frumvörpin okkar um að eitthvert tiltekið frumvarp hafi ekki í för með sér neinn aukinn kostnað vegna þess að ríkisstarfsmaðurinn sem vinnur verkefnið, eða innir þau af hendi, hann á bara alltaf að vinna meira og meira en það fer aldrei neitt af disknum.