154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:39]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er víða hægt að koma við en maður hefur stuttan tíma og ég held að við ræðum þetta betur í nefndinni í haust. En ég held að vaxtakostnaður almennt hjá ríkinu sé á betri stað en við höfum séð hann yfir lengri tíma. Það er náttúrlega verið reikna þetta núna með nýjum hætti og setja upp í fjárlagafrumvarpinu nákvæmlega með þeim hætti sem var rætt hér fyrr í dag af fjármálaráðherra í hans svörum. Þannig að við getum ekki tekið það með sama hætti kannski og við höfum verið að gera áður í samanburði. Það er kannski svolítið flókið að fara í þetta á stuttum tíma en mér finnst, í örstuttu máli, það sem vantar kannski almennt í stærra samhengi þegar við erum að ræða fjármál ríkisins og efnahagsmál á Íslandi að það þurfi að ræða það í einhverju sögulegu samhengi. Við getum aðeins byrjað: WOW féll 2019, heimsfaraldur í mars 2020 og svo Úkraínustríðið fyrir einu og hálfu ári. Þetta eru rosaleg áföll í samhengi hluta. (Forseti hringir.) Ég held að við þurfum einhvern veginn að ná þessari umræðu svolítið lengra og dýpra, hvernig hlutir eru að gerast í tengslum við þetta. En ég held áfram hér rétt á eftir.