154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:42]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er nákvæmlega þetta sem ég sagði áðan. Það er erfitt að ræða þetta í svona stuttu máli hér. Framtíðarvaxtakostnaður af lífeyrisskuldbindingum er kominn inn í þessa tölu, það skekkir líka myndina þannig að það er erfitt að takast á við þetta. Stóru atriðin í samhengi hlutanna sem við erum að fást við hér á landi: Frá aldamótum hefur fjölgað um 2% í Evrópu, 41% á Íslandi. Þetta er gríðarlegt álag á öllum innviðum, fjárfestingu og öðru til að halda hlutum gangandi. 41% fjölgun í landinu frá aldamótum. Ég held að þetta sé raunverulega stóra verkefnið sem við erum að fást við í þessu samhengi hlutanna. Síðan erum við með mikinn hagvöxt umfram aðrar Evrópuþjóðir og þessi lönd sem við erum alltaf að bera okkur saman við. Þetta er það sem við erum að fást við, í framhaldi af heimsfaraldri, í framhaldi af stríðinu í Úkraínu sem skapar mikið álag á allar aðfangakeðjur í heiminum, eldsneytiskostnað og annað í veröldinni. Mér finnst dálítið einfalt að ætla að sleppa öllu þessu ytra umhverfi sem er gríðarlega erfitt um þessar mundir, með tilliti til þessara aðstæðna.