154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:43]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað skipta þessar ytri aðstæður máli en ekki er Ísland eitt að glíma við afleiðingar Úkraínustríðsins. Við meira að segja sluppum við orkuhlið afleiðinganna í því samhengi. Þegar hv. þingmaður nefnir fjölgunina þá er ég kannski einmitt að nefna það að mér finnst skína svo sterkt í gegn að sundruð ríkisstjórn boðar aldrei stefnu. Við þurfum ekki að fara aftur til aldamóta. Skoðum bara hvað gerist á síðustu fimm til tíu árum, hvernig ferðaþjónustan er að vaxa og á hversu miklum hraða. Af hverju hefur ríkisstjórnin ekki skoðun á því eða stefnu hver mörkin eru í því samhengi? Innflutt vinnuafl til að vinna í ferðaþjónustunni, allir ferðamennirnir sem hingað koma — við höfum öll taugar til greinarinnar og höfum metnað fyrir henni en það þarf sýn. Hún hefur áhrif, ruðningsáhrif á húsnæði, hún hefur áhrif á álag hjá lögreglu, í heilbrigðiskerfinu, á vegunum okkar, skólunum, björgunarsveitir tala um þetta. Fólksfjölgunin, (Forseti hringir.) það hlýtur að vera einhver stefna á bak við það hver æskileg mörk eru í því samhengi.