154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:46]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé ekki endilega þannig að þeir sem eru manni ósammála hafi ekki kynnt sér málin. Ég þekki þá hópa, þeir eru nokkrir, sem hæstv. ferðamálaráðherra hefur sett upp. Ég sakna hins vegar ákveðinna spurninga þar undir. Við vitum hver framleiðnin er í greininni og ég vil bara taka það fram að mér finnst það eilíflega koma sem viðbragð þegar maður ræðir um ferðaþjónustuna, að í því felist einhver andstaða við greinina. Þvert á móti. Við sem þjóð erum, held ég öll, meðvituð um það hversu mikið byggðamál ferðaþjónustan hefur reynst, hvað hún hafi gert fyrir byggðir landsins, hversu mikilvæg hún var okkur eftir hrun. En það eru þættir þarna eins og ruðningsáhrifin sem hún hefur, t.d. bara hér í Reykjavík. Ef því fylgir ekki markviss stefna þá hefur það afleiðingar, framleiðnin í greininni í samhengi við hagvöxtinn og allt þetta, innflutningurinn hingað til lands. Ég held að ef stefnan er ekki skýr — og ég fagna þeirri vinnu sem ráðherra er að lýsa að sé að fara af stað — þá held ég að við getum komist upp að þeim mörkum að velvild almennings geti farið dvínandi.