154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:49]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég held ég hafi aldrei í mínu máli verið að tala um samanburð við 2017, ég er einfaldlega að tala um það sem við blasir og ferðaþjónustan sjálf talar um að hún er í örum vexti. Það eru staðreyndir málsins. Ég er að tala um það að ég held að það hljóti að skipta máli varðandi þau verkefni sem eru núna að detta inn á borð fjárlaganefndar að það fari að sjást skýrt á spilin um það hver stefnan er. Liggja fyrir einhver viðmið um það hvar þolmörkin liggja? Eru þolmörkin hin sömu í Reykjavík og í byggðum landsins? Auðvitað ekki. Það hlýtur að vera aðstæðum háð hverju sinni. Ég bara fagna öllu slíku samtali en mér hefur fundist vanta verulega upp á það, af hálfu stjórnarliða ekki síst, að ræða það hver þáttur ferðaþjónustunnar er til góðs en líka um áhrif á innviði í stóra heildarsamhenginu.