154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:39]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Við ræðum um fjárlög ársins 2024. Ég vil byrja á að líta nokkur ár til baka áður en heimsfaraldur gerði vart við sig í samfélaginu. Líklega hefði enginn getað ímyndað sér árið 2019 að fjárlagafrumvarp ársins 2024 liti svona út. Það sá enginn árið 2019 hvað var í vændum á næstu árum. Ríkissjóður stóð mjög vel. Skuldir voru lágar og lækkuðu ár frá ári og við vorum að lækka tekjuskatt og tryggingagjald. Við vorum að ráðast í hvetjandi aðgerðir til orkuskipta, styðja við húsnæðismál og efla nýsköpun og rannsóknarstarf. Góð staða ríkisfjármálanna gaf tækifæri til þess að ráðast í kröftuga uppbyggingu, m.a. nýs Landspítala og fjölgun hjúkrunarrýma sem var búið að fjármagna. Við vorum að lengja fæðingarorlofið úr níu mánuðum í tíu. Ríkið var rekið á pari. Svo kom heimsfaraldur. Við ákváðum að standa með fólkinu í landinu og gera frekar meira en minna. Þegar horft er í baksýnisspegilinn var það rétt ákvörðun. Gerðum við of mikið? Það kann vel að vera á einhverju sviði, það er bara hægt að segja til um það eftir á hvað var hæfilega mikið. Hvað hefði gerst ef við hefðum gert of lítið? Lítil fjölskyldufyrirtæki um allt land hefðu þurft að leggja upp laupana, atvinnuleysi væri líklega talsvert og lífskjör mun verri. Viðskipta- og ráðningarsambönd hefðu tapast í meira mæli og eignirnar sem litli maðurinn byggði upp væru að safnast á fáar hendur. Það hefði verið samfélaginu mjög dýrt að fara í gegnum svipaðar afleiðingar af efnahagsáföllum heimsfaraldurs eins og áttu sér stað í kjölfar bankahrunsins.

En þetta gátum við vegna þess að ríkissjóður stóð vel. Þangað þurfum við að komast aftur og þangað stefnum við. Fólk getur deilt um hversu hratt það gengur. Ég væri til í að sjá það gerast hraðar og vona að fjárlaganefnd sammælist um að nota haustið í að leita leiða til þess. En það eru margir þættir sem þarf að hafa í huga og ólík sjónarmið sem þarf að leiða saman. Í mínum huga er það samt alveg skýrt að við stefnum í rétta átt. Við erum m.a. að flýta upptöku fjármálareglna því hér gengur mun betur en við bjuggumst við. Afkoma ríkissjóðs er talsvert betri en búist var við á síðasta ári. Við misstum ekki dampinn í nauðsynlegum innviðafjárfestingum, t.d. í nýjum Landspítala. Við erum að setja 50 milljarða, já, 50.000 milljónir í fjárfestingu í nýja Landspítalanum á næstu tveimur árum. Líkt og var kynnt í fjármálaáætlun sjáum við áform um lækkun launakostnaðar annars staðar en í framlínustarfsemi en þar er ekki gerð krafa um hagræðingu. Við sjáum áform um hagkvæmari innkaup og lækkun ferðakostnaðar. Ég hef áður sagt að þetta séu mikilvæg verkefni og vonandi það sem koma skal næstu ár með aukinni tækni sem getur sinnt opinberri þjónustu og með fjarfundum sem geta leyst af ferðalög. Það er mikilvægt að við tökum innkaup ríkisins í gegn og að allir leggist á eitt í þeim efnum. En fólk gerir ekki alltaf bara það sem því er sagt, því miður. Fólk bregst við hvötum. Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um fjármálaáætlun 2024–2028 minntumst við á að það þyrfti að skoða ábatakerfið fyrir opinbera aðila til að hagræða í sínum rekstri, m.a. með bættum innkaupum. Ég tel að við ættum að taka þetta mál á næsta stig nú í haust og sjá hvort við getum ekki skapað hvata fyrir starfsfólk ríkisins til að hagræða enn meira en boðað er.

Ég sagði hér í vor að fjármálaáætlunin væri þak en ekki gólf, það má nota minna en fjárheimildir ársins segja til um. Það er því miður almennt ekki raunin og ég held að við þurfum að hugsa um það umhverfi sem við sköpum með regluverkinu. Eðlilega hafa fjárheimildir verið skertar þegar stofnunum tekst að halda útgjöldum lægri en fjárheimildum en umræðan er sú að sérstök ástæða þess að útgjöld fara yfirleitt upp í fjárheimildir eða yfir þær sé til þess að skerðing berist ekki á næsta ári. Þarna er verið að bregðast við hvötum því menn vita ekki hvort næsta ár gangi jafn vel og reksturinn verði jafn góður. Því er eytt meira en minna því það er heimild til þess.

Ég tel okkur þurfa að snúa við þessari þróun svo að stofnanir og starfsfólk þeirra njóti ávinnings þess að sýna ráðdeild í ríkisrekstrinum. Með því að njóta þess á eigin skinni er líklegra að árangur náist, samfélaginu til heilla. Útfærslan á slíku ábatakerfi þarf að vera vönduð til að koma í veg fyrir misnotkun. Ég mun leggja til við nefndina að við tökum málið upp á fundum okkar í haust. Þá vil ég ítreka að ég á við hagræðingu á gjaldahliðinni. Ég er ekki að hvetja til aukinnar tekjusóknar opinberra aðila til þess að bæta afkomuna.

Ræðum um hvað er að gerast. Það er gríðarlega ánægjulegt að sjá fjölgun heimsókna á island.is og fleiri verkefni verða að veruleika. Þetta mun spara pening, spara fjármagn og bæta þjónustu. Til að mynda er áætlað að stafrænar þinglýsingar muni spara samfélaginu 1,6 milljarða árlega, já, 1.600 milljónir. Dæmin hafa sem betur fer sannað það margoft að hægt er að gera meira fyrir minna þó að margir trúi enn mýtunni um að lægri fjárframlög þýði verri þjónustu og hærri fjárframlög þýði betri þjónustu.

Skattar og gjöld bifreiða hafa lækkað mikið undanfarin ár en þó hefur ekki verið jafnt gefið í þeim efnum. Notkun rafmagnsbíla hefur skilað talsvert minni sköttum í ríkissjóð en notkun annarra bíla og verða samkvæmt frumvarpinu tekin skref í þá átt að deila kostnaðinum betur. Til stendur að einfalda kerfið og gera það sanngjarnara með því að notendur greiði fyrir akstur. Markmiðið er að standa áfram fyrir metnaðarfullri uppbyggingu samhliða nauðsynlegu viðhaldi vegakerfisins. Ítrekað er í frumvarpinu að gjaldtaka verður þó þannig að hagkvæmara verði að eiga rafmagnsbíla en aðra bíla sem er jákvætt. Efnahagslegi þátturinn við notkun rafmagnsbíla er sá að eldsneytið er framleitt innan lands. Það þarf ekki að nota dýrmætan gjaldeyri til að knýja þá áfram.

Fleiri leiðir eru færar til þess að byggja upp vegakerfið en gjöld á bifreiðar og mun ég á þessu þingi endurflytja mál sem flutt var af Haraldi Benediktssyni á síðasta löggjafarþingi. Málið hefur verið kallað frumvarp um samfélagsvegi í umræðunni. Lagt er til að sveitarfélög geti flýtt verkefni samgönguáætlunar með stofnun sérstakra félaga sem fjármagna sig utan hefðbundinnar fjármögnunar af fjárlögum. Með því að vega saman innheimtu veggjalda og flýta framkvæmdum skapast mögulega þær forsendur fyrir ríkisvaldið að í sumum tilfellum fari ekki allt fyrirhugað framlag til viðkomandi vegagerðar sem samgönguáætlun hefur markað heldur létti innheimta veggjalda á þeirri fjármögnun. Meira um það mál síðar. En ég tel rétt að við horfum á fleiri leiðir til þess að einkaframtakið geti létt undir með ríkissjóði í innviðauppbyggingu til að flýta nauðsynlegum lífskjarabótum fyrir fólkið í landinu.

Þá hef ég einnig lagt fram þingsályktunartillögu um uppbyggingu Kjalvegar, fjármagnaðan af einkaaðilum og rekinn með veggjöldum. Slík framkvæmd yrði lyftistöng fyrir ferðaþjónustu beggja megin hálendis og fyrir landsbyggðina alla.

Og talandi um ferðaþjónustuna, eina stærstu útflutningsgrein þjóðarinnar: Það stefnir í að gjaldeyristekjur vegna ferðaþjónustu verði á pari við sjávarútveginn og stóriðjuna samanlagt á þessu ári eins og var fyrir heimsfaraldur. Í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að gistináttaskatturinn sé innleiddur á ný og nái nú einnig til fljótandi gistieininga, þ.e. skemmtiferðaskipa. Í ferðaþjónustu líkt og í öðrum atvinnugreinum er nauðsynlegt að samkeppnisstaða aðila sé jöfn. Gæta verður þess að opinber rekstrarumgjörð mismuni hvorki fyrirtækjum né rekstrarformum. Ferðamálaráðherra hefur skipað starfshóp um samkeppnishæfni og verðmætasköpun sem er falið að skoða m.a. gjaldtöku af ferðaþjónustu og ég bind vonir við að starfshópurinn skili niðurstöðum sínum áður en við afgreiðum þetta frumvarp. Flestum sem hafa kynnt sér málið hlýtur að vera ljóst að betri aðgangsstýring að ferðamannastöðum er nauðsynleg. Gistináttaskattur er ekki aðgangsstýring að náttúruauðlindunum heldur skattheimta sem hefur ekki náð til allra ferðamanna þar sem sum form gistingar hafa verið undanþegin, samanber gistingu í bifreiðum, svokölluðum „kamperum“, gistingu í skemmtiferðaskipum eða heimagistingu. Við sem störfum á Alþingi verðum að passa okkur á að líta ekki á atvinnugreinar sem uppsprettu skatttekna heldur einbeita okkur að því að skapa sanngjarnan vettvang fyrir aðila til að keppast um að veita góða þjónustu á sem hagkvæmustu verði. Slíkt umhverfi er líklegast til þess að hámarka verðmætasköpun og þar með skatttekjur ríkissjóðs. Því stærri sem kakan er, því betra fyrir þjóðarbúið.

Örstutt um krónutölugjöld. Það er vinsælt að ræða um krónutölugjöld í umræðu um fjárlagafrumvarp. Jákvætt er að sjá krónutöluhækkanir í námunda við verðbólgumarkmið Seðlabankans frekar en verðlagsþróun. Hér er um að ræða enn eina aðgerðina sem ríkissjóður ræðst í til þess að reyna að hefta vöxt verðbólgu. Þegar krónutöluhækkanir eru lægri en verðlagsþróun er í raun um skattalækkanir að ræða. Miðað við áætlaða verðbólgu er hér um að ræða 3 milljarða kr. skattalækkun.

Aðeins um húsnæðismarkaðinn og fólksfjölgun. Hagvöxtur á Íslandi hefur verið á talsverðu flugi og það er önnur staða en þekkist í mörgum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Hér er mikla atvinnu að hafa og fólksflutningar til landsins bera þess merki. Alls fjölgaði íbúum á Íslandi um 11.510 í fyrra eða um 3,1%, sem er mesta fjölgun sem sögur fara af á einu ári. Þessa þróun sáum við halda áfram á fyrri helmingi þessa árs þegar okkur fjölgað um tæplega 6.500 eða um rúmlega 1.000 manns á mánuði. Íbúum hérlendis hefur fjölgað um 41% frá aldamótum en aðeins um rúm 2% í Evrópu til samanburðar. Þessi gríðarlega fjölgun hefur sína kosti og galla. Við þurfum á þessari fjölgun að halda til að keyra áfram atvinnulífið en þetta setur þrýsting á innviði. Við þurfum því að bregðast við en því fylgja vaxtarverkir. En húsnæðismálin sérstaklega verðum við að taka föstum tökum og leiðin til þess er aukið framboð húsnæðis. Við verðum að einfalda regluverk og liðka fyrir hraðari uppbyggingu húsnæðis. Stærsta málið er auðvitað að lóðir og lánsfjármagn séu til staðar svo hægt sé að byggja.

Mikilvægt er að fjárlaganefnd skoði mögulegar leiðir til að örva framboðshlið markaðarins. Það þarf að líta til þess að yfir 22.000 íbúðir á landinu voru ekki skráðar sem lögheimili neins í byrjun árs, þar af rúmlega helmingur á höfuðborgarsvæðinu. Getum við með einhverjum hætti komið þeim inn á íbúðamarkað? Við þurfum einnig að kanna hvort við getum með hagrænum hvötum örvað áframhaldandi uppbyggingu húsnæðis en fréttir berast af því að verktakar séu að stöðva verk vegna vaxtaumhverfisins.

Ég vil gera styttingu vinnuvikunnar að umræðuefni hér og hvernig til hefur tekist. Ég held að flestum sé ljóst að vinnutímastyttingin varð okkur dýrari en við vonuðumst til og hefur sett töluvert álag á kerfin okkar. Í lok síðasta árs var birt úttekt frá KPMG um styttingu vinnuvikunnar hjá ríkinu. Í skýrslunni segir að áhrif vinnutímabreytinga ríkisins á skilvirkni í rekstri stofnana sé heilt yfir óljós. Hins vegar séu vísbendingar um að gæði þjónustu hafi minnkað. Það er mat KPMG að stofnanir séu margar hverjar hvorki af þeirri stærð né hafi mannauð og skipulag til að takast á við jafn viðamiklar breytingar og verkefnið um betri vinnutíma gerði kröfur um. Vinnutímastytting án breytinga á launum er í raun hækkun launa á hverja unna vinnustund. Grundvöllur launahækkana er að framleiðni aukist. Þetta tvennt verður að haldast í hendur til þess að innstæða sé fyrir launahækkunum, að öðrum kosti leiðréttir hagkerfið misvægið með verðbólgu. Við þekkjum þá sögu of vel á Íslandi. Ég tel að það sé mikilvægt að skoða áhrif vinnutímastyttingar á þjónustu stofnana því að markmiðið var ekki verri þjónusta.

Nú stendur til að hækka tekjuskatt á hagnað lögaðila um 1 prósentustig á næsta ári tímabundið í eitt ár. Ég verð að setja fyrirvara við þessa aðgerð og legg áherslu á að nefndarmenn í fjárlaganefnd ræði vel þá hvata sem skapast. Ég tel líklegt að hagnaður fyrirtækja verði lægri á næsta ári gangi breytingin eftir en hærri á árinu sem er að líða og á árinu 2025. Það eru ýmsar leiðir til að færa tekjur milli mánaða í bókhaldinu sem erfitt er að greina. Þá er einnig líklegt að kostnaðarsömum útgjöldum verði frestað í ár og farið í þau á næsta ári, jafnvel öðrum flýtt sem hefði átt að fara í á árinu 2025 til þess að lækka hagnað á árinu 2024. Þetta gæti valdið þveröfugum áhrifum en þeim sem reynt er að ná fram. Ég tel því rétt að við skoðum vel hvort aðrar aðgerðir geti komið í stað hækkunar tekjuskatts á lögaðila, aðgerðir sem búa ekki til skrýtna hvata fyrir atvinnulífið. Fólk og fyrirtæki bregst við hvötum og við breytum því ekki með lagasetningu. Þess vegna þurfum við að vanda vel þær aðgerðir sem við ráðumst í.

Þá lítillega um verðbólgu. Verðbólgan vofir yfir okkur og við þurfum að takast á við hana. Það eru tvær leiðir færar frá þeim punkti sem við erum í núna, upp eða niður. Sundruð förum við líklega upp, sameinuð förum við niður. Hvað á ég við þegar ég segi „við“? Ég á við ríkissjóð, Seðlabankann og aðila vinnumarkaðarins. Ríkið eitt og sér getur illa náð tökum á verðbólgu, Seðlabankinn getur það, en gjaldið gæti orðið mjög hátt. Verði bankinn einn í baráttunni er það eins og að gera heilt hús fokhelt til þess að skipta um eldhúsinnréttingu. Kostnaðurinn verður talsvert hærri en þörf er á og samfélagið gjörbreytist líklega til hins verra. Aðilar vinnumarkaðarins þurfa að snúa bökum saman í baráttunni við sameiginlegan óvin. Skoða verður launa- og framleiðnibilið til lengri tíma og meta innstæður fyrir launahækkunum.

Frú forseti. Að ná tökum á verðbólgu er verkefni sem á sér stað um allan heim um þessar mundir. Það er hvorki einfalt né auðvelt verkefni fram undan, það mun taka á og það er engum greiði gerður að fresta sársaukanum. Hann verður þá bara meiri þegar þar að kemur. Það þýðir að við þurfum að setja á frest verkefni sem er gott að hafa, líkt og verið er að gera hjá ríkissjóði og einbeita okkur fyrst og fremst að verkefnum sem eru nauðsynleg. Sveitarfélög verða að fylgja okkur á þeirri vegferð. Við þurfum á því að halda að aðilar vinnumarkaðarins komist að niðurstöðu um hóflegar launahækkanir og atvinnulífið gæti jafnframt hófs í verðlagningu Það þurfa allir að leggja sitt af mörkum til að gera verðbólgulækkunarferli eins sársaukalítið og hægt er, en ferlið verður ólíklega sársaukalaust. Því meira sem hið opinbera og aðilar vinnumarkaðarins leggja af mörkum, því hraðar sjáum við Seðlabankann lækka vexti. Það er hlutverk okkar sem erum í valdastöðum samfélagsins að koma í veg fyrir að kynslóðir sem eru að vaxa úr grasi finni á eigin skinni víxlverkun launa og verðlags sem hún hefur lesið um eða heyrt sögur af við matarborðið.

Að lokum þetta, frú forseti. Það eru erfið verkefni fram undan sem við þurfum að sinna af kostgæfni. Það er stórt verkefni að halda jafnvægi í ríkisfjármálum á komandi árum og færa þau á þann stað sem þau voru fyrir heimsfaraldur. Verkefnið og langtímamarkmiðið er að við þurfum að halda áfram að stækka kökuna, breikka tekjustofna og fjölga tækifærum á Íslandi og tryggja þau góðu lífskjör sem við Íslendingar búum við. — Ég hef lokið máli mínu, frú forseti.