154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:00]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég lét hafa eftir mér á mbl.is fyrir rúmri viku að mér hugnaðist náttúrlega illa þessi sameign fyrir norðan á Akureyri. Það er bara af þeirri gildu ástæðu að það er mikilvægt að hafa tvær stofnanir í bænum og undirstöðustofnanir í samfélaginu. Nú erum við að fara í þessa vinnu í fjárlögunum. Við erum rétt að byrja, það er verið að kynna frumvarpið og við erum rétt að hefja þetta ferli þannig að auðvitað eigum við að fara í nánari vinnu og umræðu um þessi mál. En það er alveg ljóst að mér hugnast ekki að í sameiginlega heimabæ okkar hv. þingmanns sé farið í þessar aðgerðir. Það er ljóst og ég held, eins og ég hef látið hafa af eftir mér með þetta mál, að það stuðli að meiri einsleitni í okkar samfélagi að hafa ekki þessa báða öflugu valkosti sem eru til staðar hvor á sínu sviði, sem hafa reynst okkur gríðarlega vel.

Það er svo sem ekkert meira að segja um það, að svo stöddu, fyrir utan það náttúrlega að við Akureyringar leggjum mikla áherslu á og við teljum okkur búa í skólabæ og ég efast um að Háskólinn á Akureyri væri þar nema af því við erum með þessa tvo öfluga framhaldsskóla í bænum. En ég held að það verði frekar farið nánar í fjárlagavinnunni varðandi fjármagn og annað. Ég er ekki með þessar tölur hérna hjá mér, hvernig þær standa nákvæmlega. Mér fannst rangt staðið að þessu máli svo það sé sagt hér og með skiljanlegum hætti.