154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:05]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þingmaður höfum örugglega tekist á við og verið samherjar varðandi fjárveitingar ríkisins til menningarmála á landsbyggðinni í okkar fyrri störfum í bæjarstjórn Akureyrar. Þá var það náttúrlega þannig að Þjóðleikhúsið, Sinfónían, og allt, voru raunverulega að taka fjármagnið. Þannig að hlutfallslega var mjög takmarkað, meira að segja miðað við mannfjölda, sem fór út á landsbyggðina. Það hefur nást einhver árangur eins og menningarsamningurinn. Já, það hefur skánað frá því sem var fyrir einhverjum árum. En þetta, held ég, verður eilíf barátta nákvæmlega um þetta og það er bara það sem við erum að fást við. Það er rétt hjá hv. þingmanni, a.m.k. þegar ég var í fjárlaganefnd síðast, nú er ég kominn inn í hana aftur, þegar maður var í fjárlaganefnd þá var þetta svolítið barátta landsbyggðar við að reyna að ná einhverju meira til menningarmála á landsbyggðinni. En mér sýnist nú að það séu fjárveitingar til uppbyggingar á menningarhúsi t.d. á Sauðárkróki, man ég, þannig að það er verið að setja einhverja peninga í það. En varðandi menningarmálin, þar erum við samherjar í því að reyna að tala fyrir því að ná meiru.

Varðandi gistináttaskattinn. Ég kom aðeins inn á hann í minni ræðu. Nú kemur hann aftur inn um áramótin og það þarf að ná bara meira jafnræði á milli þess hvaða gistieiningar eru notaðar, eins og ég kom inn á í ræðu minni. Varðandi Framkvæmdasjóð ferðamannastaða þá er mögulega eitthvað verið að lækka þar en það verður að taka það fram að umræðan hérna 2016, 2017, 2018 var um kúk og piss í ferðaþjónustu. Það er búið að gera ótrúlega mikið á síðustu árum og leggja miklar og háar upphæðir í þetta, þannig að við erum ekki að heyra sömu viðbrögðin í ferðaþjónustunni. Við sjáum að það er komið töluvert af góðum og öflugum stöðum sem hafa verið byggðir upp. (Forseti hringir.) En auðvitað þarf að halda áfram að gera betur. Þetta verður allt tekið fyrir í nefndinni núna á næstu þremur mánuðum í vinnu hennar.