154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:37]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024 er hér til 1. umræðu. Heilt yfir er frumvarpið skynsamlega sett saman og áhersla lögð á þau verkefni sem leysa þarf úr á næsta ári með ábyrgð og festu að leiðarljósi. Hvað á ég við? Jú, ríkið vinnur áfram gegn verðbólguþrýstingi, aðhaldið er aukið á útgjaldahliðinni og forgangsraðað er í þágu fjárfestinga í bæði grunnþjónustu og innviðum. Aðalatriðið er að öll grundvallaratriði ríkisfjármálanna, sem eru undirliggjandi í því frumvarpi sem hér um ræðir, sýna fram á svo ekki verði um villst að við erum á réttri leið. Við fetum okkur örugglega fram veginn. Ég nefni í því sambandi að sögulegur afkomubati á síðasta ári, á þessu ári og eins og útlit er fyrir á næsta ári, sögulegur afkomubati, langt umfram fyrri áætlanir, er augljóslega til vitnis um það.

Frú forseti. Í þessari 1. umræðu er það eitt atriði sérstaklega sem ég vil fá að gera hér að umræðuefni í minni ræðu en það er hin mikla eftirlitsskylda Alþingis með fjárreiðum ríkisins og hvernig hægt er að styrkja þennan þátt. Það er ágætt að rifja upp í þessu sambandi að með nýjum lögum um opinber fjármál sem sett voru 2016 voru stigin mjög stór skref í að innleiða tæki og tól til að stuðla að góðri hagstjórn, styrkri og ábyrgri stjórn opinberra fjármála heilt yfir. Það var m.a. gert með heildstæðri stefnumótun til lengri og skemmri tíma, með aga við framkvæmd fjárlaga, meiri aga við framkvæmd fjárlaga, og ég vitna þá til innleiðingar á fjármálareglum í því sambandi, annars vegar um afkomuþáttinn og svo skuldaþáttinn og svo enn fremur breytt framkvæmd og fyrirkomulag á eftirliti með stjórn og ráðstöfun opinbers fjár.

Eftir þessi ár sem liðið hafa tel ég að sé komin ágætisreynsla á þetta fyrirkomulag og þessa nýju nálgun sem lög um opinber fjármál boðuðu á sínum tíma. En að sama skapi tel ég að það sé nokkuð augljóst að eftirlit með framkvæmd fjárlaga af hálfu Alþingis, eftirlit með framkvæmdinni og þá að sama skapi líka eftirlit og að reyna að sporna gegn framúrkeyrslu framkvæmdarvaldsins og stofnana, framúrkeyrslu framkvæmdarvaldsins fram úr fjárheimildum, þetta eftirlit getur svo sannarlega verið öflugra og þarf að vera öflugra. Af þessum ástæðum tel ég vel athugandi að þingið hefji fyrir alvöru vinnu, taki þetta föstum tökum, dýpki umræðna og athugi betur hvort ekki sé rétt að bæta við fjármálaregluna sérstakri útgjaldareglu og hafa slíka útgjaldareglu sem meginreglu við stjórn opinberra fjármála. Þau rök sem hafa verið sett fram í þeirri umræðu, að afkomu- og skuldareglan dugi ekki til, eru um margt sterk og ýmislegt sem er athugandi í þeirri umræðu. Útgjaldaregla sem myndar þak á, hvað eigum við að segja, vöxt útgjalda hins opinbera á hverjum tíma gæti verið það aðhald sem þarf til að koma í veg fyrir óhóflegan útgjaldavöxt, hvort sem um er að ræða að það sé uppsveifla í hagkerfinu, þá eru auðvitað gríðarlegur þrýstingur þegar tekjur ríkisins aukast, myndast jafnframt gríðarlegur þrýstingur á að auka frekar í útgjöldin, en að sama skapi kemur þetta til líka þegar það dragast saman umsvif í efnahagslífinu, tekjur ríkisins minnka, þá er aftur kominn þrýstingur á ríkisvaldið að stíga inn í. Það er held ég óumdeilanlegt að kostir þessarar reglu eru að hún getur rétt útfærð verið í senn einföld og gegnsæ og skiljanleg.

En áður, frú forseti, þingið fer og tekur upp slíka útgjaldareglu þá held ég að það séu önnur atriði sem hægt væri að horfa til fyrst. Ég nefni í því sambandi að hugað verði að því að innleiða ákveðna aðferðafræði sem felst í reglubundnu endurmati á útgjaldaþörf ríkisins í fjárlagafrumvarpi hvers tíma. Þetta er aðferðafræði sem mörg ríki OECD styðjast við með ágætisárangri og hefur einfaldlega það markmið að tryggja skilvirka og ábyrga meðferð skattfjár í samræmi við forgangsröðun stjórnvalda á hverjum tíma. Takist vel til tel ég það vera mun raunhæfara að það sé hægt að draga úr sífelldri aukningu útgjalda og stilla skattheimtu ríkisins í hóf. En aðalávinningurinn væri að við hefðum þá einhver tæki og tól sem stuðla að því að þeir fjármunir sem er ráðstafað til tiltekinna verkefna nýtist sem best. Niðurstöður endurmats eiga þannig að geta lagt grunn að næstu fjárlagagerð og nýjum útgjöldum. Ég sé fyrir mér að nýjum útgjöldum þyrfti að fylgja tillögur til sparnaðar á móti. Við erum þá ávallt að tryggja að forgangsröðun fjármuna sé með markvissari hætti. Samandregið tel ég vera til mikils að vinna og vel við hæfi að Alþingi, sem fer með þetta mikilvæga eftirlitshlutverk, hugi betur að þessum þætti.

Frú forseti. Hér í 1. umræðu um fjárlagafrumvarpið er viðbúið, og hefur orðið raunin í umræðum í dag, að hv. þingmenn fari um víðan völl. Það er viðbúið og það er hefðbundið en þetta eru ekki eingöngu breiðu strokurnar, þetta eru líka atriði sem eru ekki ný af nálinni. Þar meina ég að stjórnarandstaðan komi og segi að þetta sé allt saman ómögulegt, það þurfi meiri útgjöld í hin og þessi góðu verkefni, það þurfi á móti að hækka skatta, það þurfi meiri tekjur og það þurfi að auka í millifærslukerfin — listinn er mjög langur. Ég ætla ekki að elta ólar við alla þessa umræðu en það sem ég vil koma sérstaklega inn á er þessi hugmynd sósíalista, krata og annarra um að það sé lausn á öllu að einfaldlega hækka skatta á fólk í þessu landi og þar með hafi stjórnmálamenn öll þau tæki og tól til að gera allt fyrir alla. Þetta er hefðbundið stef sem við höfum auðvitað heyrt oft áður og þar kristallast í sjálfu sér ákveðnar línur hér, hugmyndafræðilegar línur á milli flokka.

Það er hins vegar einn hængur á þeirri einföldu lausn vinstri manna að boða skattahækkanir, það er einungis eitt vandamál: Þessi lausn virkar ekki. Hún hefur aldrei virkað og hún er ekki að fara að virka núna. Það eru gömul sannindi og ný að með hærri sköttum er dregið úr verðmætasköpun í þjóðfélaginu. Með því að draga úr verðmætasköpun í þjóðfélaginu getur það leitt á endanum til þess að tekjur ríkisins einfaldlega minnka. Höfum líka í huga, frú forseti, að skattar á Íslandi á fólk, á almenning í landinu, eru nú þegar í alþjóðlegum samanburði háir. Þeir eru háir og ég tel ekkert rými til þess að vera að hækka þá. Við getum þá líka þessu til vitnis, um að skattar eru háir, skoðað umsvif ríkisins eða jafnvel hins opinbera af landsframleiðslunni. Þau umsvif eru gríðarlega há. Það er þannig að ef við göngum mikið lengra í hækkun skatta erum við að þrengja að framleiðslunni í landinu. Við erum að þrengja að atvinnulífinu. Við drögum þrótt úr allri verðmætasköpun, við drögum þrótt úr fjárfestingum og minnkum þar með hvata til nýsköpunar og innleiðingar á frekari betri tækni. Framleiðniaukningin hverfur, verður nær engin, og það sem meira er; samkeppnishæfni atvinnulífsins, samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs versnar og það er dregið úr alþjóðlegum viðskiptum. Það leiðir einfaldlega til þess að íslenskt samfélag verður fátækara. Við munum ekki hafa úr sömu lífskjörum að spila ef þetta verður ofan á, ef þessi leið vinstri manna verður ofan á, að það sé hægt að hækka skatta. Það sem er ábyrgt og rétt að gera nú sem fyrr — af því að það er þannig, hvort sem það er nú eða áður fyrr, að það verður ekkert þjóðfélag ríkt, býr við aukin lífskjör, með því að eyða um efni fram. Það einfaldlega gengur ekki. Allar þær hugmyndir vinstri manna sem við höfum lesið í sögubókum úr ævintýrum Münchhausen, að það sé einfaldlega hægt að hífa sig upp á hárinu, fást einfaldlega ekki staðist.

Skynsamlegast, frú forseti, er að fylgja þeirri stefnu sem hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin hefur markað og kemur m.a. fram í síðustu ríkisfjármálaáætlun í vor, birtist í þessu fjárlagafrumvarpi. Það er einfaldlega sú stefna að við höldum áfram að treysta til muna afkomu ríkissjóðs, stöðugt og örugglega, að við förum að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Við drögum þannig úr vaxtagjöldunum og við myndum þannig frekara svigrúm til að bæta rekstur ríkisins og mæta fjárfestingarþörfinni. Það er slík ábyrgð og festa í ríkisfjármálum sem stuðlar að stöðugleika í efnahagslífinu, ýtir undir raunverulega framleiðniaukningu í efnahagslífinu, frekari verðmætasköpun. Þetta er sú forsenda sem þarf að liggja til grundvallar til að við getum haldið áfram að byggja upp velferðarkerfið, til að við getum haldið áfram að bæta lífskjör fólks í landinu. Þetta er aðalatriðið.