154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[20:50]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt að hv. þingmaður skuli draga þessi orð sín til baka eða reyna að setja þau í eitthvert annað samhengi. Staðreyndirnar tala sínu máli eins og ég fór yfir í mínu fyrra andsvari. Varðandi þau framlög sem hv. þingmaður vísar til þá er rétt að það voru tímabundnar ráðstafanir, 3,2 milljarðar á Covid-árunum sem runnu til Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs. Við skulum hafa það á hreinu að verið er að gera stóran hluta þessara tímabundnu framlaga varanlegan. Við sjáum líka það sem er jákvætt, að frumkvöðlar og fjárfestar hafa tekið þessu mjög vel, tekið þessu fagnandi og gefa íslenskum stjórnvöldum hæstu einkunn á þessu sviði. Við sjáum að áætlunin gerir ráð fyrir að endurgreiðslur til nýsköpunarfyrirtækja á næsta ári muni aukast um allt að 2 milljarða. Það er aukning. Við erum í sókn og það er vel. Við skulum halda þessum hlutum til haga og ekki tala niður það sem vel er gert. Auðvitað er það þannig að þegar verið er að ræða um málaflokka eins og nýsköpun, rannsóknir og þekkingarsetur þá snýr það að rannsóknum í fræðasamfélaginu, í háskólunum. Ráðist hefur verið í margvíslegar aðgerðir og við skulum vera stolt af því að við erum að ná árangri á þessu sviði. Það mun skila okkur betra samfélagi og bættum lífskjörum.