154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:26]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhann Páll bregst við orðum mínum hér í gær þar sem ég gagnrýndi stórfelldar skattahækkanir og áform Samfylkingarinnar eftir ræðu hv. þm. Kristrúnar Frostadóttur. Hann nefnir það sérstaklega að það eigi að fara og skoða veiðigjöldin en áður hafði hv. þm. Kristrún Frostadóttir talið upp ýmsa skatta sem á að hækka á fólk og fyrirtæki. Það sem er alveg sérstaklega vitlaust í þessum nýju hagstjórnarfræðum Samfylkingarinnar er að Samfylkingin boðar stórfelldar hækkanir á fólk og fyrirtæki til að bæta í millifærslukerfin, til að auka útgjöld ríkissjóðs svo að fyrirtækin þurfi ekki að borga fólki hærri laun. Þetta er eitthvað á þá leið, herra forseti, þessi nýja hagstjórnarfræði Samfylkingarinnar. Gott og vel það er ágætt að hún leggur spilin á borðið með þessum hætti. En hv. þingmaður nefnir veiðigjöldin sem eru að fara hækkandi og verða 12,2 milljarðar á næsta ári; hækkandi af því að þau eru í tengslum við afkomu fyrirtækjanna í greininni og hækka og lækka eftir henni og það skiptir máli hvað er veitt mikið. Það er augljóslega stór breyta. En mig langar að spyrja sérstaklega: Hvað ætlar Samfylkingin að hækka veiðigjöldin mikið? Hvað ætlar hún að hækka veiðigjöldin mikið og hvernig reiknar hún það út, hvernig fær hún út hver auðlindarentan af fiskveiðiauðlindinni er? Hver er hækkunin?

(Forseti (BÁ): Forseti vill minna á að ávarpa ber þingmenn með fullu nafni eða nefna kjördæmi og kjördæmisnúmer en ekki nefna bara skírnarnafn.)