154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:29]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að hvetja frænda minn, hv. þm. Teit Björn Einarsson, til að kynna sér keynesíska hagstjórn og kynna sér þær leiðir sem voru farnar hér, ekki bara á eftirstríðsárunum heldur langt fram eftir 20. öld í flestum ríkjum, ekki bara í norrænum ríkjum, heldur líka í Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi og víðar, til að halda aftur af óhóflegum launakostnaði fyrirtækja, m.a. í gegnum sterk tilfærslukerfi. Þetta er auðvitað gamalkunnugt. Hér er Samfylkingin ekki að finna upp hjólið. Ég hvet t.d. hv. þingmann til að lesa ágæta bók eftir hagfræðinginn Barry Eichengreen sem heitir Economic Growth in Europe since 1945 eða eitthvað slíkt, þar sem fjallað er ítarlega um þetta. Ég ætla líka að minna hv. þingmann, frænda minn, á það hvaða flokkur það er sem hækkaði hér flöt gjöld á fólk og fyrirtæki upp úr öllu valdi um síðustu áramót við samþykkt fjárlaga ársins 2023 þegar krónutölugjöld voru svo gott sem verðtryggð upp í topp. Ætli það hafi ekki verið 6 milljarðar eða svo sem þannig voru teknir sérstaklega af lágtekju- og millitekjuheimilum og litlum fyrirtækjum.

Annars spurði hv. þingmaður um veiðigjöldin. Það eru til rannsóknir þar sem hefur verið slegið mati á auðlindarentuna í sjávarútvegi. Ég held að flestum beri saman um að meta hana á sirka 50 milljarða; einhvers staðar á bilinu 40–50 milljarða. Ég tel að stórútgerðin í landinu, þessar allra stærstu útgerðir séu alveg aflögufærar. Við höfum notað sem viðmið (Forseti hringir.) að það væri hægt að sækja 4 milljarða aukalega með því að leggja sérstakt álag á stærri útgerðir.(Forseti hringir.) Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu.