154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

fjármagn til meðferðarúrræða fólks með fíknivanda.

[15:11]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Hversu sorglegt er að standa hér og tala um ótímabæran dauða fárveiks fólks en á síðasta ári eru 12 einstaklingar, 12 fárveikir fíklar og einstaklingar með fíknivanda, dánir ótímabærum dauða á meðan þeir biðu á biðlista eftir því að fá sjúkrahjálp, eftir að fá hjálp við veikindum sínum. Hvernig má það vera að við erum að draga úr fjárframlögum í heilbrigðisþjónustu? Það er að verða einhver sú yfirgripsmesta og ömurlegasta ásýnd sem við getum litið á í heilbrigðiskerfinu. Hvernig má það vera að sá sjúkdómur sem er farið að viðurkenna sem einn alvarlegasta sjúkdóm sem heimsbyggðin er að glíma við í dag, er í rauninni hornreka í okkar ríka samfélagi? Hvernig má það vera að 50 einstaklingar eru dánir á einu ári ótímabærum dauða vegna fíknisjúkdóma? Hvernig stendur á því, virðulegi forseti, að þegar einstaklingur hringir inn á sjúkrahúsið Vog og biður um hjálp þá þarf hann að bíða í tíu mánuði? Ég vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvað eru heilbrigðisyfirvöld að gera nú? Nýjasta sagan, nýjasta dauðsfallið: Ung kona sem útskrifast af sjúkrahúsinu Vogi núna í lok ágúst, þrem dögum seinna var hún dáin frá tveimur litlum börnum sínum vegna þess að það eru ekki til fjárveiting, það eru ekki nógir fjármunir til að sinna þessari heilbrigðisþjónustu. Fólk er látið bíða á biðlistum og það er hipsum happs hvort það lifir það af eða ekki.

Hæstv. ráðherra: Hvað er heilbrigðisráðuneytið að gera í þessari stöðu? Hvenær megum við búast við forvörnum? Hvenær megum við búast við því að sé tekið utan um þennan vanda þessara sjúklinga eins og allan annan heilbrigðisvanda í samfélaginu?