154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

greiðsluþátttaka sjúklinga og samningur um þjónustu sérgreinalækna.

[15:36]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir fyrirspurnina. Það er rétt og það er mjög ánægjulegt að samningur milli Sjúkratrygginga og sérgreinalækna um þjónustu þeirra var undirritaður í sumar og tók gildi núna 1. september. Þessi samningur er til fimm ára og er okkur öllum mjög mikilvægur og ekki síst til að þessi stefna okkar um aðgengi að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og óháð búsetu, gangi upp. Í þessum samningum var vægi samráðsnefndar svokallaðrar aukið og er mjög mikilvægt að hafa í huga þegar við förum yfir þetta mál sem hv. þingmaður kemur inn á, þ.e. brjóstaminnkunaraðgerðir sem eru gerðar bæði á Landspítala og hjá sjálfstætt starfandi lýtalæknum með greiðsluþátttöku í gegnum Sjúkratryggingar. Samningar milli Sjúkratrygginga og Læknafélagsins tóku gildi 1. september og samstarfsnefndin hefur tekið þetta mál fyrir eins og greint er um í samningum. Það er komið á borð samstarfsnefndar og þar er verið að meta einmitt kostnaðinn, eins og hv. þingmaður kom inn á, sem er mikilvægt við þessar aðgerðir. Við stjórnvöld leggjum ríka áherslu á að það verð sem Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir heilbrigðisþjónustu almennt endurspegli raunkostnað við að veita hana, óháð því hvort það eru sjálfstætt starfandi aðilar eða spítali.

Í reglugerð um lýtalækningar er kveðið á um greiðsluþátttökuna og vísar í reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði almennt vegna heilbrigðisþjónustu. Það tengist þessu máli að hámarksgreiðslan er í almanaksmánuði fyrir heilbrigðisþjónustu samkvæmt reglugerð þessari 31.150 kr. (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Ég skal klára þetta til glöggvunar í seinna andsvari en þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál á dagskrá.