154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

atvinnuleysi meðal fólks af erlendum uppruna.

[15:50]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Líkt og kemur fram í máli þingmannsins þá er hlutfall fólks á atvinnuleysisskrá sem er af erlendum uppruna hærra heldur en innfæddra og hefur hækkað þegar kemur að langtímaatvinnuleysi, sem veldur okkur auðvitað ákveðnum áhyggjum. En atvinnuleysi er lítið í landinu eins og staðan er núna og það sem við höfum verið að vinna við á undanförnum mánuðum, allt þetta ár, er að koma á nýju verklagi hjá Vinnumálastofnun sem gengur út á að setja meira fjármagn í greiningarvinnu til að taka viðtöl og átta sig á hvernig staða þeirra er sem hafa verið utan vinnumarkaðar og á atvinnuleysisskrá í 12 mánuði eða lengur. Verkefnið felur þannig í sér að greiningarviðtal fer fram við hvern og einn einstakling þar sem hægt er að greina betur þær ástæður sem liggja að baki langtímaatvinnuleysinu. Þar með er í kjölfarið hægt að veita einstaklingum betri þjónustu til að sigrast á þeim hindrunum sem standa í vegi fyrir atvinnuþátttöku. Þannig skiptir Vinnumálastofnun hópnum eða einstaklingunum í fjóra mismunandi hópa eftir því þjónustustigi sem á þarf að halda. Einn hópurinn er þeir sem eru metnir hafa fulla starfshæfni en takmarkaða ráðningarhæfni. Svo er hópur sem er á mörkum þess að hafa starfs- og ráðningarhæfni og þarf stuðning ráðgjafa og styrkingu samhliða ráðningu o.s.frv. Með þessu erum við í rauninni að gjörbylta starfsemi stofnunarinnar og gera henni kleift að greina hópinn sem setið hefur lengur eftir með gagnreyndum aðferðum og spurningalistum. Hún öðlast þannig mikilvæg gögn um hópinn og getur veitt honum einstaklingsmiðaðra þjónustuúrræði heldur en hann ella myndi fá, rétt eins og hv. þingmaður nefndi. Auðvitað á þetta bæði við um fólk af innlendum og erlendum uppruna sem er á atvinnuleysisskrá. (Forseti hringir.) Ég bind miklar vonir við að þetta verkefni muni skila okkur meiri árangri og get farið aðeins betur yfir það á eftir.